Færsluflokkur: Bloggar

Dofinn miðjufingur

Undanfarna viku hef ég þjáðst af mikilli vöðvabólgu í hægri öxlinni.  Verkinn leiðir niður í olboga og einhver taug er greinilega klemmd.  Ég er nefnilega koldofin í löngutöng.  Þegar fólk spyr mig hvar ég sé dofin rétti ég auðvitað upp þann fingur.  Það furðulega er að ég er bara ásökuð um dónaskap.  Erfitt að fá skilning í þessum veikindum..

Eru mæður ekki fallegar ?

Rak augun í þessa frétt um spænska stúlku sem var meinað að taka þátt í fegurðarsamkeppni af því hún átti 3 ára son.  Þetta er lýsandi fyrir þann hugsunarhátt sem ríkir í kringum fegurðarsamkeppnir víðsvegar um heim.  Stúlkurnar sem taka þátt þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði sem geta verið margvísleg: ekki vera gift, ekki eiga börn, ekki vera of gömul, ekki hafa gert neitt sem keppnishaldarar telja siðferðislega ófullnægjandi og ekki vera nema rétt yfir hungurmörkunum í þyngd.  Verið er að eltast við einhverja afdankaða jómfrúarímynd en samt er stúlkunum stillt upp klæðalitlum eins og kjötstykkjum á markaði.  Sú framsetning er í hróplegu ósamræmi við þær fullkomnunarkröfur sem stúlkunum eru settar.  Vart þarf að taka fram að þó að vissulega séu sett skilyrði í fegurðasamkeppni karla eru þau öðruvísi og ekki eins ströng (gæti verið að Herra Ísland fyrrverandi sé mér ósammála).  Amk telja menn á Spáni að karlmenn geti verið fallegir þó þeir eigi börn, en sama á ekki við um konur.  Mæður virðast ekki teljast fallegar eða sexý.  Stúlkan í fréttinni var undrandi á fornaldarhugsunarhætti keppnishaldara.  Ég er hissa á því að hún skyldi ekki átta sig á því hversu steinaldarleg og hallærisleg sú hugmynd að halda fegurðarsamkeppni er. 
mbl.is Spænsk fegurðardrottning dæmd úr leik fyrir að vera móðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórtán ára dóttir ! Þarf nýrra módel !

Í gær varð einkadóttirin 14 ára.  Úff !  Tíminn flýgur !  Fyrsti kærastinn er skammt undan... argh argh.  Við fórum út að borða í tilefninu á Ítalíu og áttum þar frábæra stund með fjölskyldu pabba hennar, Svanhildi systur og Guðlaugu dóttur hennar.  Þessa helgi er ég að passa guðdóttur mína, Eyrúnu, sem er varð einmitt 5 mánaða í gær.  Margir myndu telja að maður myndi prísa sig sælan að eiga svona gamalt barn eftir að prófa aftur að annast um lítið kríli.  En áhrifin eru þveröfug. Mig langar bara í annað barn, takk fyrir !  Þessi litla mús er búin að hrista ærlega upp í eggjastokkunum á mér Smile  Nú vantar bara sjálfboðaliða til að redda mér nýrra módeli Tounge Meðfylgjandi er mynd af Eyrúnu í stuði, er það furða að maður bráðni ??

feb07 110


Sex stungur á dag koma skapinu í lag

Skrapp til heimilislæknisins í morgun og þurfti að láta taka eina blóðprufu.  Sem blóðgjafi og atvinnusjúklingur/slysafíkill er ég alvön blóðtökum og skellti hendinni óhrædd fyrir framan lífeindafræðinginn (úff var næstum búin að skrifa meinatæknir, það hefði farið illa).  Þá byrjaði ballið.  Hún stakk mig en ekkert kom í nálina.  Þá fór hún að hræra í olbogabótinni með nálinni, í örvæntingafullri tilraun til að komast inn í æð.  Ekkert gekk, en sársaukinn var ólýsanlegur.  Hún baðst afsökunar og réðist svo á hægri hendina.  Þar var sama sagan, ekkert blóð kom og hún djöflaðist í mér fram og til baka með tilheyrandi kvölum.  Þú ert alltaf að kippa þér undan, sagði hún og horfði ásakandi á mig.  Ég hélt nú ekki !  Þá réðist hún á vinstri hendina aftur.  Eftir miklar kvalir og óþægindi náði hún loks að komast inn í æð og taka prufuna.  En það tók SEX stungur !  SEX takk fyrir !  Í ljós kom að daman hafði notað ónýta teygju um hendina og því ekki getað hert nógu vel að.  Reyndi svo að kenna mér um allt.  Mrrrrrrrd.  Get því bætt við mig nýju viðurnefni - götótta konan.

Stofnfundur SUR

SUR (26)Í gær var haldinn stofnfundur SUR - Starfsmannafélags Umhverfissviðs.  Ég var göbbuð til þess að vera fundarstjóri á þessari samkomu sem ég samþykkti (þó ég reyndi að koma mér undan með því að gera mér upp tíu mismunandi hitabeltissjúkdóma - var ekki trúað).  Mér lukkaðist að stýra fundinum með stæl, enda var nú aldrei gert ráð fyrir því að þetta væri átakafundur Smile   Það er gott framtak að farið hafi verið í að stofna þetta félag og það verður án efa til þess að auðga félagslíf sviðsins í heild.

Mont dagsins í boði SSS

jan06 004Einkadóttirin hringdi í mig fyrr í kvöld til að segja mér hvernig henni gekk á Meistaramóti Reykjavikur 14 ára og yngri í dag.  Ekki þarf að kvarta undan árangrinum, hún fékk silfrið í hástökkinu og gullið í kúluvarpinu.  Þar bætti hún sig ennfremur um 29 cm og kastaði kúlunni 8,60 m.  Móðurhjartað belgdist út af stolti við þessar fréttir.  Keppni heldur áfram á morgun og það verður spennandi að heyra hvernig gengur þá.  Fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér þá eru íþróttahæfileikarnir sennilega ekki frá mér komnir.  Gekk reyndar vel í hástökkinu í ÆSK í gamla daga, en þar með endar glæsilegur íþróttaferill minn.  Tja, gleymdi reyndar silfurverðlaununum í kúluvarpi stúlkna á sumarhátíð Vinnuskólans sumarið 1986.  Hilda á nægjanlega mikið af verðlaunapeningum til að geta veggfóðrað með þeim Smile   Læt fljóta með mynd af henni frá keppni í fyrra.

Grínfrétt Moggans - geðheilsa USA-búa betri en óttast var :-)

Mér líður betur eftir að mér var bent á að þetta var bara grínfrétt sem ég var að fjalla hér um að neðan og taldi raunverulega.  Bandaríska þjóðin er ekki gengin af göflunum eftir allt saman LoL


Eru bandaríkjamenn endanlega gengnir af göflunum ?!!

Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég á þessa frétt !!!  Fréttastjórar að biðjast afsökunar af því að hafa tekið smá hlé á fréttaflutningi af láti Önnu Nicole til þess að birta ómerkilegar fréttir s.s. um ástandið í Darfur.  24 stærstu fréttastofurnar gagnrýndar fyrir ófullnægjandi fréttaflutning af láti hennar.  Getur það virkilega verið að 300 miljón manna þjóð hafi ekki viljað gera neitt annað í þrjá sólarhringa en horfa á fréttir af dauða C-klassa leikkonu og sukkara ?  Ef svo er þá er veruleikafirring komin á hættulega hátt stig þarna úti !
mbl.is Fréttastofur gagnrýndar fyrir slælega umfjöllun um andlát Önnu Nicole
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er ég algert fashion statement í vinnunni

22

Varúð ! Kanína framundan !

mai06 028Í gærmorgun rumskaði ég um sexleytið og kippti þá kanínunni minni upp í rúm til að kúra hjá mér.  Ég steinsofnaði aftur og vaknaði ekki fyrr en að klukkan hringdi klukkutíma síðar. Ég teygði aðeins úr mér og bylti mér til en sængin var of freistandi til að spretta strax fram úr.  Svo með ofurmannlegu átaki svipti ég mér upp, reif af mér sængina og sveiflaði löppunum fram úr.  Þá stökk skelfingu lostin kanína út úr sænginni í loftköstum og þvagbunan stóð aftan úr henni yfir mig og rúmið.  Ég var s.s. búin að steingleyma því að kanínan gæti verið á sveimi í rúminu !  Oftast stekkur hann aftur niður á gólf og fer í bælið sitt.  Annars liggur hann til fóta og kemur röltandi þegar ég fer að hreyfa mig.  Það var hann væntanlega að gera þarna greyið, hefur verið að koma til að heilsa mér og ég þeytti honum á loft með sænginni.  Þetta tafði morgunverkin aðeins að þurfa að redda hreinsun á kanínupissi.  En ég get sjálfri mér um kennt.  Kanínan fyrirgaf mér um leið og kálið og gulræturnar voru komnar í matardallinn.  Passa að gera ræfilinn ekki að flugkanínu aftur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband