Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Stuð í stúdentaveislu

Eva stúdentÁ laugardagskvöldið var haldin útskriftarveisla fyrir Evu Halldóru systurdóttur mína, en hún var að ljúka stúdentsprófinu frá Versló núna í vor.  Að sjálfsögðu stóð hún sig stórkostlega vel.Smile   Í veislunni var voða stuð og valinkunnur skríllinn.  Ég sat hjá systrabörnum mínum og við rifjuðum upp ýmsa atburði úr æsku þeirra, s.s. þegar ég fékk tequila í afmælisveislu Gumma mágs og endaði svo á að leika mér í bófaleik allt kvöldið við frændur mína Atla og Andra, sem þá voru smápollar.  Þeir áttu ekki til orð yfir því hvað Svava frænka var skemmtileg allt í einu...  Svo var það sagan af skáphurðinni í eldhúsinu hjá mömmu.  Fyrir ofan kústaskápinn var grunnur efri skápur með fremur stórri skáphurð.  Hjarirnar voru eitthvað farnar að bila og mamma margoft búin að biðja pabba um að laga þetta enda óttaðist hún að hurðin gæti dottið niður á eitthvað barnið á heimilinu.  Eitt kvöldið brá hún sér frá og ég, Svanhildur og Steinar Örn vorum heima hjá pabba.  Við Steini vorum svona 3 og 7 ára held ég, Svanhildur um 11 ára.  Af einhverri ástæðu vorum við öll stödd inni í eldhúsi, fyrir framan kústaskápinn, þegar skáphurðin góða ákvað að láta sig húrra.  Aumingja Svanhildur var stærst svo hún fékk versta höggið, svo hélt hurðin áfram í hausinn á mér og Steina.  Ég man enn eftir að sjá hurðina koma !  Þegar mamma kom heim sá hún að skáphurðin var dottin niður og varð þá að orði: Guði sé lof að börnin voru ekki undir henni.  Börnin ?  Þau voru öll undir henni ! var henni svarað LoL   Ótrúleg tilviljun !  Þetta var s.s. frábær veisla og veitingarnar dásamlegar.  Eva Halldóru óska ég alls hins besta í framtíðinni - henni eru allir vegir færir þessari elsku.

Útskýrir hvers vegna sumar tegundir dóu út...

herman21832870070416

Fínn fundur og skemmtilegt grill

Í gær stóð ég fyrir fundi hjá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa.  Ég var megastressuð fyrir fundinn því ég var ekki viss um að margir myndu mæta.  Mér til gleði og ánægju var vel mætt og fundurinn var velheppnaður.  Allir fyrirlesararnir höfðu unnið svo vel og héldu góð og skemmtileg erindi.  Inni í mér var lítil Svava sem hafði áhyggjur af því að stóra Svava væri ekki að standa sig nógu vel en fólk er búið að fullvissa mig um að svo var ekki.  Svo ég er bara í skýjunum yfir hve vel til tókst.  Súper !!  Ég er s.s. formaður fyrrnefnds félags og því mikilvægt að ég líti ekki út eins og alger asni (eða amk minni asni en venjulega).  Í dag var svo dúndurdagur í vinnunni.  Við tókum til í húsinu og ég hjálpaði til við þrifin í eldhúsinu.  Þrátt fyrir góða yfirferð yfir innihald ísskápsins og vönduð þrif tókst okkur ekki að losna við ýldulyktina sem frá honum berst.  Hmmm, okkur grunar að eitthvað hafi skriðið inn í hann og dáið - í afviknum kima sem við náum ekki til !  Tiltektinni lauk svo með grillun hamborgara og bjór með.  Wehehehe !!! Ég hakkaði í mig hamborgara og skolaði þeim niður með foss af bjór (hey þetta var eftir allt saman ókeypis bjór, ég bara varð að nýta mér það).  Ég ligg því heima slompuð uppi í rúmi með honum Runólfi (sem er köttur, in case your're wondering).  Party on !!

Nafna mín í Danmörku

Svava1

Sælusunnudagur með sykursætum frændum og sjónvarpsglápi

Steinar SverrirÉg eyddi sunnudeginum í afslöppun með Hildu og Steingrími litla.  Þvotturinn grátbað mig um að brjóta sig saman og sófinn öskraði á ryksuguna (kötturinn Nói hefur skilið eftir sig klóna af sjálfum sér um allan sófa, svo mikið er háralosið).  Ég lét sem ég heyrði ekki þetta nöldur og gerði nákvæmlega ekki neitt annað en að labba um íbúðina með barninu.  Eftir hádegið skelltum við okkur í heimsókn til Svanhildar systur.  Frændurnir góðu voru jafnsætir og venjulega.  Fjörið í þeim var svo mikið að eggjastokkahringlið sem venjulega fylgir heimsóknum til þeirra varð aðeins minna en venjulegÓlafur Steinara.  Þeir eru nú samt ómótstæðilegir - þó það séu læti í þeim.  Kvöldinu eyddi ég svo marflöt fyrir framan sjónvarpið.  Hugsaði um ekkert, gerði ekkert húslegt, lá bara og starði.  Svona dagar eru nauðsynlegir af og til, ekki spurning.  Á morgun verð ég samt að hlusta á loðna sófann því ég held að fljótlega þrói ég með mér kattaofnæmi ef ég berst ekki á móti háraflóðinu.  Pirringur í nefi er orðinn nær stöðugur !

Barnagæla - barnafæla

Eyrún sætaÍ dag heimsótti ég Sif vinkonu og dætur hennar tvær.  Hilda Margrét og Steingrímur litli stuðningssonur minn voru með í för.  Eyrún litla er orðin átta mánaða og er ómótstæðilega sæt.  Mig langaði því mjög að fá hana í hendurnar.  Sú stutta var ekki á sama máli.  Oftar en ekki brast hún í grát við það eitt að líta á mig.  Sú var tíðin að ég fékk ekkert nema leiftrandi bros frá sömu dömu.  Reyndar fékk ég líka bros núna - þegar hún var örugg í mömmu faðmi Wink Þetta er bara svo erfitt þegar maður er sjúkur í lítil kríli og vill fá að knúsa þau, en þeim finnst maður vera Þokuskrímslið frá gömlu Lundúnaborg og vilja ekkert með mann hafa.  Vona að þessi fælni renni af krílinu fljótlega. Stóra systir var ekki feimin, Arna skoppaði um spilandi kát og hafði ekkert á móti gestunum.  Fékk meira að segja að hjálpa henni að þrífa súkkulaði af höndunum á sér.  Bíddu, ég ætla að sjúga súkkulaðið af fyrst, sagði hún þegar við stóðum við vaskinn LoL Alltaf gaman að skreppa í heimsókn til þeirra systra. Ó já, og Sif er víst ekki sem verst heldur Tounge


Uppfræðsla æskunnar

Í dag var ég að halda fyrirlestra um fjöruna fyrir 8.-10. bekkinga í Korpuskóla.  Við lögðum af stað með fyrsta hópinn niður í fjöru kl. hálf níu og ég arkaði fremst, full af orku og áhuga.  Sama var ekki hægt að segja um nemendurnar.  Helmingurinn fór að kasta steinum í sjóinn og einn reyndi að grýta sel sem var nógu vitlaus til að vera að forvitnast þarna í kring.  Eftir nokkuð þóf tókst að fá þau til að standa meira og minna kyrr í hóp fyrir framan mig og ég gat byrjað að messa yfir þeim.  Ég fór þó ekki virkilega að ná til þeirra fyrr en ég sagði þeim frá áhrifum TBT mengunar á nákuðunga - sú staðreynd að kvendýr breyttust í karldýr vegna efnisins var það eina sem fékk eyrun til að sperrast upp fyrir alvöru.  Eftir klukkutíma predikun og nokkrar misheppnaðar tilraunir til að fá nemendur til að skoða umhverfið sjálfir var pása, svo var lagt af stað með næsta hóp.  Sá var enn áhugasamari en sá fyrri.  Tveir þriðju fóru að kasta steinum í sjóinn, í þetta sinn voru æðarkollur skotmarkið.  Eftir það dreifði hópurinn sér út um víðan völl og ef ég var heppin voru ca. 6 staddir fyrir framan mig að hlusta á hverjum tíma.  Slatti af hópnum reyndi að henda hver öðrum ofan í regnvatnsræsi.  Annar klukkutími búinn, önnur pása.  Hópur 3 marseraði svo af stað og virtist ekki lofa góðu.  En sjávarföllin og veðrið voru í liði með mér í þetta sinn.  Sólin skein bjart og fjarað hafði frá litlum grasivöxnum höfða.  Upp á hann brunuðu nemendurnir og lögðust í grasið í sólinni.  Þar lágu þau kyrr meðan ég las yfir þeim fræðin og þau högguðust ekki.  Engar dýrategundir voru grýttar í þessari umferð.  Ég var því tiltölulega sátt þegar ég vappaði í bílinn um hádegið.  Er samt ekki á leiðinni að gerast grunnskólakennari að atvinnu.  Til þess þarf greinilega sjálfspyntingarhvöt og óendanlega þolinmæði !

Íbúðarleitin heldur áfram - á einhver sverð sem ég get fallið á ???

Fór og skoðaði íbúð í dag.  Sett á hana 19 millur.  OMG, talandi um háa verðlagningu fyrir lítið !!  Þarna varð að skipta út eldhúsinnréttingu strax og gera upp baðið.  Svefnherbergisskáparnir voru ónýtir og barnaherbergið pínulítið.  Úff !!  Ekki alveg þess virði að punga út svona mörgum peningum fyrir !  Finn að örvæntingin er farin að læðast að mér.  Nú er bara að bíta á jaxlinn og halda áfram að skoða.  Minn tími hlýtur að koma !

Hjólum í vinnuna - áfram Svifryksbanar !

Þessa dagana er í gangi keppnin hjólað í vinnuna.  Umhverfissvið tekur að sjálfsögðu þátt og erum við í 20. sæti í okkar flokki hvað varðar fjölda daga og í 10. sæti hvað varðar fjölda kílómetra. Ég reyndar svindla aðeins - ég hjóla bara frá mömmu í Stigahlíðinni þar sem hjólið er geymt og þaðan í vinnuna.  En það telur allt - og það eru 4,2 km á dag.  Það eru 3 lið á sviðinu og mitt heitir Svifryksbanar.  Í augnablikinu erum við með bestu tölurnar ! YESSS !!  Við munum sigra !! Svo er bara að keyra á þetta og hjóla eins og vitlaus síðustu dagana.  Hver veit nema við getum híft okkur upp í verðlaunasæti ??  Fólk var að vísu með efasemdir varðandi hjólreiðar mínar.  Það þótti nokkuð víst að ég myndi brjóta einhvern útlim ef ég færi að ferðast um á hjóli. Enn sem komið er held ég öllum beinum heilum en er aðeins búin að lenda í hremmingum við að drösla hjólinu inn og út úr hjólageymslunni.  Er með nokkra glæsilega marbletti til að sanna það.  Keppninni lýkur í næstu viku, verð vonandi enn heil og í vinningsliðinu.  Áfram Svifryksbanar !  Hér er heimasíða Hjólað í vinnuna.

Hahahahah

herman2007043054821

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband