Færsluflokkur: Bloggar

Í USA er það ekki storkurinn sem kemur með börnin, maður sækir þau bara sjálfur..

Undanfarin ár hafa komið upp nokkur mál í USA þar sem ófædd börn eru skorin úr kviði móður sinnar.  Í nokkrum tilfellum hafa börnin lifað, í öðrum dáið enda gjarnan ekki fullburða.  Vart þarf að taka fram að mæðurnar hafa ekki lifað "aðgerðirnar" af.  Einni konu tókst að berjast á móti og drepa geðsjúklinginn sem var kominn til að skera úr henni barnið og konan í fréttinni hér slapp með naumindum.  Hversu sjúkt getur fólk verið ???  Og hvers vegna gerist svona helst í USA ??  Hef ekki heyrt um þetta gerast í öðrum löndum, get ekki útilokað það þó.  Ekki er ólíklegt að sumar konurnar hafi fengið hugmyndina við að fylgjast með fréttum af svipuðum voðaatburðum.  Kannski fer einhver klikkhausinn af stað eftir að lesa um réttarhöldin yfir þessari konu.  Maður fær hroll niður bakið við að hugsa um þetta !


mbl.is Játaði að hafa skorið maga ófrískrar nágrannakonu sinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttið upp hönd þeir sem öfunda mig af starfinu mínu

14

Bafta verðlaunin afhent með pompi og pragt

Ég var að horfa á Bafta verðlaunaafhendinguna áðan og skemmti mér ágætlega.  Það er allt annar andi yfir þessum verðlaunum, meiri stíll og fágun en á Óskarsverðlaunahátíðinni.  Brandararnir eru fyndnari hjá kynnunum, sumir virðast meira að segja vera að spinna það upp sem þeir segja á staðnum.  Þakkaræðurnar eru styttri, ekki eins tilfinningalega ofhlaðnar og á Óskarnum og ég varð ekki vör við nein tár.  Helen Mirren var drotting kvöldsins og vann verðlaunin fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í The Queen.  Kynnirinn sagði fyrr um kvöldið að Helen Mirren hefði tekist hið ómöglega: að gera Elísabetu drottningu að sexý konu LoL .  Það eina sem pirraði mig var íslenski þulurinn.  Hann var hundleiðinlegur og greinilega ekkert sérlega góður í ensku.  T.d. þegar hann var að bera fram nafn leikstjórans Martin Scorsese, þá hljómaði það svona: Martin Skor se se.  Ííík.  Hann talaði um besta leikara/leikkonu í "stoðhlutverki", hingað til hefur þetta verið kallað í "aukahlutverki".  Bein þýðing á best supporting actor/actress.  Þessum þulum er alltaf  troðið inn til að lýsa svona hátíðum en eru alger óþarfi að mínum dómi.  Þeir skemma bara fyrir manni þegar maður er að reyna að hlusta á það sem fólkið er að segja.  Hefði t.d. ekki viljað missa af Ricky Gervaise þegar hann afhenti ein verðlaunin.  Sá maður er verulega fyndinn Smile .  Verð að sjá The Queen, hún var valin besta myndin.  Langar líka að sjá The last king of Scotland, sem fjallar um Idi Amin.  Verst hvað er orðið dýrt í bíó.

Spennan eykst !

Það er sagt að raunveruleikinn sé oft ótrúlegri en skáldsaga.  Það á vel við í gátunni um faðerni dóttur Önnu Nicole heitinnar.  Nú er farið að blanda löngu dauðum eiginmanni hennar í spilið.  Hún á sem sagt að hafa notað fryst sæði hans til geta þetta vesalings litla grey sem allir vilja eiga.  Ef málið væri svo einfalt að hún ætti sæði úr karlfausknum inni í banka af hverju í ósköpunum hefði hún þá ekki verið búin að nota það fyrr ?  Ég bíð spennt eftir því hver gefur sig fram næst ?  Ólafur Ragnar Grímsson ?  George W. Bush ?  Yfirstrumpur ?  Best væri auðvitað að Angelina Jolie og Brad Pitt ættleiði barnið.  Það væri flottur endir á sögunni.


mbl.is Notaði Smith fryst sæði eiginmannsins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugljúf dvöl í Himnaríki :-)

feb07 038Ég brá mér af bæ í dag með barn og stuðningsbarn og skellti mér með Steinku systur í heimsókn til Gurríar ofurbloggara uppi á Skaga.  Helen systir fékk að fljóta með uppeftir en varð fljótlega snarrugluð.  Því redduðum við snarlega með súkkulaði og kók.  Við komum færandi hendi í Himnaríki með kökur og Gurrí var ekki lengi að hita tevatn og redda kaffi úr fínu kaffivélinni.  Guðrún vinkona hennar kom skömmu síðar í heimsókn og við spjölluðum saman og nutum útsýnisins yfir sjóinn.  Við gátum einnig skoðað nýju svalirnar hennar Gurríar, sem enn er ekki hægt að komast út á nema í gegnum lítinn glugga.  Sem er fínt, ef maður er á stærð við kött.  Þegar Gurrí verður komin með dyr út á þær verða þetta feb07 059fullkomnar partísvalir.  Hún ætlar einnig að rækta þar kartöflur og koma upp þyrlupalli.  Eftir ljúfa dvöl í Himnaríki skelltum við okkur á nýopnað kaffihús þar sem við nutum góðra veitinga.  Að því loknu brunuðum við systur í bæinn með börnin, sælar og ánægðar.  Það var hugljúft að dvelja í Himnaríki.

Roðn

Hversu vandræðalegt er það að sofa yfir sig og koma klukkutíma of seint í vinnuna af því þú lagðist ofan á símann sem þú notar sem vekjaraklukku ?  Jamm, rétt, það er ferlega vandræðalegt.  Ekki bætir úr skák að starfsmannafundur skuli einmitt vera í gangi þegar þú ert að mæta á staðinn svo að allir vinnufélagar þínir sjá þig koma skömmustulega og stimpla þig inn. Argh. Væri afsakanlegt ef ég væri táningur - ekki á mínum virðulega aldri ! Blush

Frægur, frægari, frægastur

01_intro_apLátin er í Bandaríkjum Norður Ameríku kona að nafni Anna Nicole Smith, 39 ára gömul.  Raunverulegt nafn hennar var Vicky Hogan.  Kona þessi hafði sér helst til frægðar unnið að hafa gifst 89 ára gömlum olíumiljarðamæring þegar hún var aðeins 27 ára.  Svo barðist hún árum saman fyrir því að fá eftir hann arf þegar hann hrökk upp af ári eftir brúðkaupið.  Þeirri baráttu var enn ekki lokið.  Hún sat fyrir í Playboy.  Einnig varð hún fræg fyrir að verða feit og svo aftur mjó.  Hún var sérstaklega fræg fyrir undarlega og oft vafasama hegðun sína á opinberum vettvangi sem tengja mátti við eiturlyfjanotkun.  Heimsbyggðin fylltist samúð með henni í fyrra þegar hún misti einkason sinn sviplega og fréttavefir um allan heim urðu rauðglóandi þegar hún dó undir dularfullum kringumstæðum í gær.  Spurningin er, hvers vegna var hún svona fræg ?  Margar ungar konur hafa gifst eldri mönnum til fjár ?  Margir haga sér eins og kjánar þegar þeir eru undir áhrifum ?  Margir hafa fitnað og svo grennst aftur ?  Anna Nicole er svipuð Paris Hilton að þessu leiti, þær eru frægar fyrir að vera frægar.  Manneskjur sem elska sviðsljósið og gera allt til að halda sig þar.  Munurinn á Paris og Anna Nicole er sá að sú síðarnefnda barðist af örvæntingu við að finna leiðir til að koma sér á framfæri, sú fyrri þarf bara að vera til til þess að fá athygli.  En hvað skilja þessar manneskjur eftir sig ?  Nákvæmlega ekki neitt. Því frægðin var bara frægðarinnar vegna.  Það sem mér finnst merkilegt er hve margar svona persónur eru ljóshærðar.  Goðsögninni um heimsku ljóskuna verður seint eytt úr þessum heimi, sama hve margar þeirra falla í valinn með aðstoð lyfja.

Lost snýr aftur

Var að horfa á endursýninguna af Lost þættinum frá mánudeginum.  Fyndið, ég horfði ekki á fyrstu seríuna nema síðustu þættina, en nú er ég alveg föst yfir þessu.  Það er í rauninni lítið að gerast í hverjum þætti en samt getur maður ekki beðið eftir að fá að vita meira.  Jack og Sawyer eru eru nógu sætir til að halda manni við skjáinn líka.  Ég vona samt að framleiðendur þáttanna ætli ekki að draga það í átta seríur eða svo að segja okkur allan sannleikann.  Ef ég á að endast einhverjar seríur í viðbót þurfa þeir að setja inn eitthvað freistandi, s.s. Clive Owen. Þá skal ég horfa þó ekkert annað gerist en að hann sé á skjánum Tounge   Merkilegt annars hve vel þau hafa sloppið við sólbruna þó svo að þau hafi enga sólarvörn að bera á sig.  Og hvað ungabarnið er orðið stórt miðað við að þau eru bara búin að vera þarna í 69 daga...

Inflúensan er komin !

Undanfarin ár hef ég nýtt mér það tilboð atvinnurekandans að fá flensusprautu án endurgjalds.  Minnug innflúensu dauðans sem ég fékk í Danmörku 1999, þegar ég hélt virkilega að mín síðasta stund væri runnin upp, svo slæm var hún.  Reyndar hefði ég getað látið lífið í þessum veikindum af öðrum orsökum, því vinkona mín sem kom að hjúkra mér skildi eftir kveikt á hellu niðri í eldhúsi og það var einskær tilviljun að ég hökti niður og sá hana rauðglóandi og rjúkandi í myrkrinu.  En þetta var nú útúrdúr.  Í ár klikkaði ég á sprautunni.  Ég var að fara í eftirlit þegar boðið var upp á sprautuna en ein var geymd handa mér og hjúkkurnar í vinnunni ætluðu að sprauta mig síðar.  Hmmm.  Ég bara steingleymdi sprautunni.  Mundi stundum eftir henni á kvöldin en þegar ég mætti í vinnuna var hugsunin horfin.   Nú er það of seint !  Innflúensan er komin - það sem verra er - hún er komin heim til mín !  Einkadóttirin horfði á mig í dag með döprum, soðnum hvolpaaugum og tilkynnti mér að hún væri með 40 stiga hita.  Við tók parasetamól sukk og mikið dekur.  Nú sefur hún sætt og rótt og verður vonandi hressari á morgun.  Búin að vera veik í 2 daga, henni finnst það alveg nóg.  Mín mesta skelfing er að ég smitist líka.  Spurning hvort dugi að bryðja hvítlauk og brenna reykelsi til að halda veirunum frá... Krosslegg fingur, tær og leggi og vona að ég sleppi !

Nýir meðlimir Tuborg fjölskyldunnar

Tuborg Grön hefur eignast litla bræður, þá Blå og Hvid.  Ég býð þá hjartanlega velkomna í fjölskylduna og get ekki beðið eftir að kynnast þeim.  Eftir námsárin í Danmörku hef ég haldið góðu sambandi við Tuborg fjölskylduna og Guld og Classic, frændur Grön, hafa fengið að kíkja í heimsókn af og til.  Grön sjálfur er reglulegur gestur, m.a. á bjórkvöldum í vinnunni.  Påskebryg og Julebryg eru fjarskyldari ættingjar sem líta við einu sinni á ári, en alltaf reyni ég að taka hlýlega á móti þeim.  Ég tek frá pláss í ísskápnum fyrir nýju strákana, en best væri auðvitað að skella sér til Köben og hitta þá á heimavelli Smile


mbl.is Blár og hvítur Tuborg til liðs við þann græna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband