Færsluflokkur: Bloggar

Ljúfur labbitúr

jan08 003Á sunnudaginn brá ég mér með Steinku systur og tíkinni Freyju í göngutúr við Rauðavatn.  Þótt það væri kalt úti var frekar stillt og okkur systrum hlýnaði fljótt á göngunni.  Freyja æddi út um allt á ógnarhraða, ef ég hlypi svona hratt íklædd pelskápu myndi ég detta niður dauð innan tveggja mínútna.  Freyja blæs ekki einu sinni úr nös þó hún fari margfalda þá vegalengd sem við systur fetuðum.  Það var alveg rosalega gaman ad labba upp á hæðina fyrir ofan vatnið og horfa á birtuna yfir borginni sem var hreinlega ferskjulit.  Mjög sérstakt.  Freyja gerði eina tilraun til að éta hesta og knapa við vatnið en að öðru leyti gekk göngutúrinn snuðrulaust.  Við systur vorum þó aðeins áhyggjufullar þegar við fórum niður bratta brekku.  Stígurinn var þakinn snjó og talsverð hálka.  Í ljósi síbrotasögu minnar fetaði ég afar varlega niður. Steinka gerði slíkt hið sama enda nýbúin að detta í jan08 008hálku.  Hefði engum komið á óvart þó við hefðum rúllað þarna niður Wink   Í lok gönguferðarinnar fengum við skemmtilegan bónus.  Við sáum rjúpu trítlandi eftir ísnum á vatninu.  Rjúpur eru svo sætir fuglar !  Þetta var ákaflega ljúfur göngutúr og ætla ég að skella mér með systur minni aftur sem fyrst.  Veit að Freyja verður til í tuskið !

Ný húsakynni Umhverfissviðs

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar, vinnustaðurinn minn, flutti núna á fimmtudaginn í nýtt hús við Borgartún 10-12.  3. hæðin, okkar hæð, er sú eina sem tilbúin er í húsinu, við erum því alein í því enn sem komið er.  Ekki er búið að klára allt og húsgögnin okkar ekki komin. Fyrstu vikurnar verða því svolítið draslaralegar hjá okkur, fullt af kössum út um allt.  Mér líst vel á nýja húsið og útsýnið hjá okkur í heilbrigðiseftirlitinu er alveg frábært.  Horfum á sundin og Esjuna, auðvelt að gleyma sér við það á fallegum morgni !  Á föstudaginn var haldin pizzu og bjórveisla til að fagna flutningunum.  Við sátum og spjölluðum á stólunum okkar, vorum að hugsa um að fara í stólarallý en það verður að bíða betri tíma LoL  Næstu vikur verða spennandi, eftir því sem fleiri borgarstofnanir flytja inn í húsið verður fjörið meira !


Bölvun!

Einhver tók sig til og skemmdi legsteininn hans pabba.  Þegar Svanhildur systir kom að leiðinu á laugardaginn var búið að rispa toppinn á steininum.  Nokkrar rákir voru komnar niður í steininn svo talsverðu afli þurfti að beita.  Enginn annar steinn í nágrenninu var skemmdur, bara hans pabba.  Þetta er svo ótrúlega svekkjandi og pirrandi, hver gerir svona ??  Hér með legg ég bölvun á viðkomandi, megi gjörðir þínar koma þér í koll þótt síðar verði !

Gamlárskvöld

Magga systir eins og frelsisstyttanHelen Laufey í rauðum bjarma

 

 

 

 

 

 

 

Aron klappar Freyju

Flugeldar


Árið 2007 er á enda - GLEÐILEGT NÝTT ÁR !!!

Jæja, enn eitt árið á enda !!!  Tíminn flýgur og eins og alltaf er maður steinhissa á því að aftur séu komin áramót.  Það er við hæfi að líta um öxl og hlaupa í stuttu máli yfir helstu atburði ársins.

Húsnæðismál:  Íbúðin í Möðrufellinu var sett á sölu í október 2006 en þrátt fyrir augljósa kosti (ég hafði búið í henni m.a.) var enginn að sýna henni áhuga.  Var þetta farið að valda mér nokkru hugarangri þar til í febrúar er loks komu nokkrar sálir að skoða.  Tilboð barst og lendingu var náð í marsbyrjun, mér til mikillar gleði.  Íbúðina keypti rússneskur eisti og litháísk koHilda með Runólfi kisa í Álakvíslinni í maína hans til að nota fyrir verkamenn hjá verktakafyrirtæki hans.  Næstu mánuði á eftir bárust mér fregnir af þeim mönnum frá örvæntingarfullum fyrrum nágrönnum.  Ótrúlegt en satt, allir söknuðu mín enda pissaði ég ekki í stigann, slóst ekki á bílaplaninu né hélt hávær partí langt fram á nótt.  Þar sem ég var nú heimilislaus gripu örlögin í taumana og sendu Helen systur til Spánar í fjóra mánuði og vantaði þá pössun fyrir heimili hennar.  Þar kom ég mér fyrir með manni og mús(um) og dvaldi í góðu yfirlæti með tveimur akfeitum dekurköttum.  Eftir langa og stranga leit á hinum afar óspennandi fasteignamarkaði í Reykjavík datt ég niður á fína íbúð á fyrstu hæð í Skipholti.  Við mæðgur fluttum þar inn í ágúst og erum hæstánægðar með lífið.  Þetta eru kunnuglegar slóðir, æskuheimilið var í næstu blokk við !  Þeir sem ekki eru búinir að koma og heimsækja okkur þarna ættu endilega að skella sér hingað á nýju ári.

Ferming:  Hilda Margrét fermdist í mars með pompi og pragt.  Hún fékk fallega fermingargreiðslu hjá Fermingarbarnið í kyrtlinumSillu vinkonu (á Hárbeitt í Hafnarfirði, mæli eindregið með henni) og skrýddist fallegum svörtum kjól með hvítum ermum við.  Veislan var haldin í Skútunni í Hafnarfirði og var þar boðið upp á góðan mat og allir skemmtu sér vel.  Hvaðan barnið fékk kristilegt hugarfar sitt veit ég ekki, amk ekki frá foreldrunum...

Ferðalög:  Hápunktur ársins var ferð okkar mæðgna til Japan.  Gunnella vinkona og fjölskylda hennar búa í Tokyo og buðu okkur að dvelja hjá sér.  Betri gestgjafa er ekki hægt að hugsa sér og gerðu þau allt til að gera ferðina sem ánægjulegasta.  Við skoðuðum margt og mikið í þessari stóru glæsilegu borg, m.a. Tokyo Tower (stærsti stálturn í heimi!), hof í Asakusa (magnað!), Ghibli safnið (geggjað), Akihabara tæknihverfið (upplifun!) og garðana við keisarahöllina (frábært!).  Ógleymanleg ferð og stórkostleg upplifun.  Við mæðgur brugðum okkur einnig báðar til Brussel, ég í september og hún í nóvember. Við hofið í Asakusa Ég var þar í fræðsluferð með heilbrigðisfulltrúum en hún að heimsækja frænku sína.  Okkur fannst báðum borgin flott og súkkulaðið gott!  Við Júlíana vinkona fórum svo til Búdapest í október og skemmtum okkur konunglega.  Gengum fæturnar upp að hnjám í skoðunarferðum um borgina og átum á okkur gat af góðum mat.  Falleg borg sem óhætt er að mæla með.  Innanlands ferðuðumst við aðeins í sumar, fórum í sumarbústað við Hreðavatn í ágúst.  Við skoðuðum fallega náttúru Borgarfjarðar og tókum einn hring um Snæfellsnesið.  Á svæðinu var krökkt af bláberjum og tíndum við í okkur hrúgurnar af berjum.  Ljúf afslöppunarferð með reglulegri dvöl í heita pottinum.

Ættarmót:  Í júlí var haldið ættarmót Rebbanna (fjölskylda móður minnar) á Vopnafirði.  Eins og Guðni fyrrum ráðherra hefði sagt: Þar sem rebbar koma saman, þar er gaman.   Og gaman var það, systkinin sem eru höfuð Virðulegir rebbar á ættarmótiættarinnar léku á als oddi og yngra fólkið var að venju í stuði.  Þetta var frábært mót og þakka ég skipuleggjendunum sérstaklega fyrir vel unnin störf.

Slys ársins: Aldrei þessu vant braut ég ekki bein á árinu.  Hilda var ekki jafn heppin og náði að tábrjóta sig í haust.  Var hún frá æfingum vegna þessa í heilan mánuð og átti erfitt með gang fyrst um sinn.  Ég vona að þetta sé ekki byrjunin á löngum brotaferli..  Helen systir vildi komast í klúbbinn og braut 3 rifbein í árslok.  Hún kemur því sterk inn og stefnir án efa á formannssætið.

Fjölskylduviðbót:  Í september fæddist Atla syni Helenar lítil dóttir sem skírð var Arna Rún.  Nýtur hún þegar mikilla vinsælda hjá fjölskyldunni og slegist er um hana í hvert sinn sem hún mætir í Arna hjá Möggufjölskylduboð.  Ég hlakka til að sjá meira af þessum sæta fjölskyldumeðlim á nýju ári.

Í heildina litið var árið gott fyrir okkur mæðgur og göngum við til móts við 2008 með bros á vör.  Sjáumst hress á nýju ári !!!


Gleðilegt ár !!!

Gleðilegt ár allir nær og fjær !!!  Set inn áramótapistil á morgun.  Skemmtið ykkur vel í kvöld og passið ykkur á flugeldunum.  Sjáumst (skjáumst) hress á nýju ári Wizard

Súpermann gleymdi búningnum úti í sólinni...


Þrumujól !

Arna Rún fær knús hjá MögguJæja, enn eitt aðfangadagskvöldið liðið.  Svínakjötið var gott, ísinn hennar mömmu frábær og heita súkkulaðið og kaniltertan voru punkturinn yfir i-ið og komman yfir ó-ið Smile   Ég byrjaði daginn á því að mæta í vinnuna.  Við höfðum það bara huggulegt saman þau sem voru mætt, spjölluðum um jólasiði og sötruðum kaffi.  Björg vinkona kom í heimsókn með Ísak son sinn og var gaman að hitta þau og fá að knúsa fyrir jólin.  Við Magnea vorum með þeim síðustu sem fóru heim og kvöddumst með loforði um spil milli jóla og nýárs.  Svo var farið í pakkaferð og í kirkjugarðinn með grein á leiðið hans pabba.  Það stytti einmitt upp þegar við vorum þar og ég var svo ánægð með að hann skuli eiga legstað á fallegum stað eins og Álftanesi í stað þess að vera í Gufunesinu.  Við mæðgur mættum ásamt Guðlaugu til mömmu rétt um fimm.  Eftir mat og pakka kom fjölskyldan saman eins og venjan er en þetta árið mætti nýr meðlimur í fyrsta sinn.  Arna Rún Atladóttir mætti og stal senunni.  Eins og venjulega slógust allir um að fá að halda á henni og tókst mér að fá tæpar 2 mínútur í minn hlut.  Mér til gleði fékk ég nóg af bókum, púsluspilum og spilum til að halda mér ánægðri yfir jólin.  Óvæntasti hluti kvöldsins var án efa ein háværasta þruma sem ég hef heyrt hér á landi sem hreinlega skók húsið um sjöleytið.  Þrumuveður í snjókomu á aðfangadag !  Nú hefur maður prófað allt.  Nú fer ég í rúmið södd og sæl.  Gleðileg jól til ykkar allra Grin

Stormur 5..framhaldssagan heldur áfram

Þetta er með ólíkindum.  Ég ligg hér upp í rúmi og nöldra við sjálfa mig.  Enn einu sinni blása vindar og rigningin rennur eins og fljót yfir gluggann minn.  Orðið ansi leiðigjarnt!  Fögur fyrirheit mín um gönguferðir á kvöldin verða ekki uppfyllt fyrr en drukknunar- og slysahætta fer minnkandi.  Annars er gott að þurfa aðeins að kvarta yfir veðrinu.  Helen systir varð fyrir fljúgandi karlmanni um helgina og braut þrjú rifbein.  Hún dvelur nú í góðu yfirlæti hjá mömmu og hreyfir sig um íbúðina með hraða snigilsins.  Held hún myndi frekar vilja vera ég, aldrei þessu vant óbrotin og bara frekar hress.  Eina vandamál mitt eru lekir gluggar.  Ég þarf að bíða vorsins og reyna að kynnast smið til að lappa upp á þá.  Fyrst þar ég samt að deita flísaleggjara og pípara til að koma baðherberginu í lag.  Nóg að gera á næsta ári s.s.  Jæja, farin að skipta um tusku í eldhúsglugganum.  Góða nótt (í vindgnauði og vatnshljóði).

Nú er úti veður vott - vindasamt líka

Það er ekki hægt að sofa fyrir veðrinu.  Það stendur beint á bakhliðina á blokkinni minni og vatnið spýtist inn um rifu á opnanlega faginu.   Það hvín og blístrar í öllu og stundum finn ég fyrir þrýstingi í eyrunum.  Ég kíkti á vef Vegagerðarinnar og Veðurstofunnar og úff, það eru 26 m/s hér í borginni !  Jahérnahér ! Meira en í óveðrinu fyrir tveimur dögum !  Ekki vildi ég vera á ferð uppi á Kjalarnesi eða Garðabæ núna, þar fara vindhviðurnar upp í 40 m/s !  Við kanínan kúrum okkur undir hlýrri sæng og prísum okkur sælar að vera innandyra.  Best að skipta um handklæði í glugganum og reyna svo að kúra.  Kári og kuldaboli verða að gefa mér séns á því einhverntíman !

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband