13.6.2009 | 01:11
Kanínustrákur í heimsókn
Ég er að passa kanínustrák fyrir fyrrum nágranna mína í Möðrufellinu. Ég hleypti honum út úr búrinu og leyfði honum að hitta Brad sem er talsvert minni og rýrari en þessi flotti og feiti gaur. Nema hvað... mínir menn fóru bara að sýna hvorum öðrum ást af miklum krafti! Greinilegt að kynferði skiptir ekki máli ef maður er kanína og til í tuskið!! Hér eru nokkrar myndir af "vinunum".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.6.2009 | 01:14
Hilda útskrifuð úr grunnskóla!
Á mánudagskvöldið var útskriftarathöfn í Réttarholtsskóla. Hilda mín tók við síðasta einkunnarblaðinu úr grunnskóla og á því blaði var ekkert til að skammast sín fyrir. Yfir 9 í meðaleinkunn ! Stefnan er svo tekin á MR í haust. Hér er mynd af stoltinu mínu og Auði Lóu vinkonu hennar með umslögin sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2009 | 13:24
Mín við vinnu, enn og aftur
Hér eru myndir frá sýnatökuferð 14. maí sl. Njótið heil. Ath. myndina af mér með Esjuna í bakgrunni, hún er í móðu vegna þess að það var svo mikið svifryk þennan dag. Svifrykið fór yfir heilsuverndarmörk! Ég er að taka sýni vegna vöktunar strandlengjunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2009 | 00:31
Dalai Lama á Íslandi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.5.2009 | 22:37
Sólarhringur á Egilsstöðum
Á miðvikudaginn flaug ég til Egilsstaða þar sem ég átti að flytja fyrirlestur um samræmdar sýnatökur í vatnsveitum á fagfundi Samorku á fimmtudag. Cindy vinkona var svo indæl að leyfa mér að gista hjá sér og við brunuðum heim til hennar í "braggahverfið". Húsin þar eru að hluta bárujárnsklædd og minntu Cindy þannig á stríðsárastílinn Cindy bjó til yndislega potpie í kvöldmatinn og svo keyptum við okkur tonn af nammi. Við horfðum svo á sjónvarpið í rólegheitunum um leið og við hökkuðum í okkur góðgætið. Tek það fram að við fórum reyndar í stuttan göngutúr fyrir kvöldmat með hundinn, svo við áttum alveg þessar kaloríur skilið. Á fimmtudagsmorguninn fórum við í heimsókn á skrifstofu Heilbrigðiseftirlits Austurlands og spjölluðum við hana Helgu Hreinsdóttur framkvæmdastjóra yfir kaffibolla. Svo sýni Cindy mér allan bæinn, við keyrðum svo út að Hróarstungu og Brúarási þar sem fjölskyldan hafði búið áður. Þetta var ákaflega gaman. Við gæddum okkur svo á meira pie áður en ég fór á fagfundinn og flutti fyrirlesturinn minn. Hann lukkaðist bara mjög vel og ég var ánægð með umræðurnar líka. Eftir það brunaði Cindy með mig á Reyðarfjörð en þangað hef ég aldrei komið fyrr. Að sjálfsögðu koðaði ég álverið - þvílíkt skrímsli!!! Við keyptum okkur ís en svo var kominn tími til að fara til baka enda flugið mitt heim klukkan hálf átta. Ég kvaddi Cindy með loforði um lengri heimsókn næst - þúsund þakkir fyrir skemmtilegan sólarhring Cindy dear I'll be back !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2009 | 13:58
Gönguferð að Hafnarbergi
Við Steinka systir gengum á uppstigningadaginn út að Hafnarbergi, fuglabjargi sem er á Reykjanesi milli Hafna og Reykjanesvita. Gangan niður að berginu er dálítið erfið þar sem göngustígurinn er sendinn og hvert skref því aðeins átakameira. Freyju fannst þetta ekkert mál og skokkaði yfir hraun og sand án þess að blása úr nös. Steindeplapör fylgdust með för okkar og sveimuðu í kringum stíginn. Að lokum komum við niður að berginu en vorum byrjaðar að heyra lætin og finna lyktina af því mun fyrr. Í berginu sátu ritur, langvíur og stuttnefjur og á sjónum sáum við auk þess álkur, teistur og toppskarf. Það var afar gaman að fylgjast með lífinu í bjarginu og alltaf er ég jafn hissa á því að þeim takist að hanga á þessum mjóu nibbum hvað þá halda eggjunum sínum þar! Við röltum svo til baka og vorum orðnar ansi þyrstar er í bílinn kom. Fyrsti stopp var svo Grindavík þar sem keypt var nammi og drykkur Dásamlegur dagur og ég varð bara nokkuð útitekin eftir ferðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2009 | 12:39
Hjólað í vinnuna - löng hádegishjólaferð í vinnunni :)
Núna á mánudaginn fórum við 18 úr vinnunni saman í hjólreiðaferð í hádeginu. Tilgangurinn var að kynna sér nýjan hjólreiðastíg við Ægissíðu og safna kílómetrum í Hjólað í vinnuna :) Við borðuðum nestið okkar í Nauthólsvík í brakandi blíðu og fengum kaffi frá starfsmönnum ÍTR áður en við brunuðum aftur til baka. Túrinn allur var um 12 km. Ágætis hreyfing það ! Hér eru nokkrar myndir frá ferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2009 | 01:03
Margt og mikið hefur gerst :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2009 | 23:21
Óli og Steinar í pössun
Ég var svo stálheppin síðasta mánudagskvöld að fá litlu frændur mína þá Óla og Steinar til mín í pössun. Foreldrarnir voru að fara til Þýskalands og drengjunum var deilt niður á æsta ættingja á meðan á ferðinni stóð. Ég fékk fyrsta kvöldið Þegar ég sótti þá voru þeir skv. mömmunni tilbúnir til að fara beint að sofa. Þegar heim var komið kom í ljós að þeir höfðu önnur plön. Þeir brunuðu inn í stofu og drógu fram allt dótið sem þeir hafa leikið sér að í fyrri heimsóknum. Fljótlega var stofugólfið þakið dóti og hressir drengir hlustuðu ekki á neinar tillögur um að kíkja í rúmið. Að lokum tókst mér að lokka þá í náttföt og þá fóru þeir að leika sér að jógaboltanum mínum. Eftir nokkur slagsmál kom ég þeim inn í rúmið mitt og las fyrir þá. Ég fór svo fram að baka bananabrauð en var trufluð á nokkurra sekúndna fresti af spurningaregni og heimsóknum frá litlum piltum En jafnvel hörðustu hetjur verða að gefast upp, Óli sofnaði fyrst og skömmu síðar lítill Steinar sem náði þó að skjótast einu sinni enn fram í eldhús að fylgjast með bakstrinum. Kl. hálf fimm um nóttina rumskaði ég þegar lítil rödd spurði: Svava, hvenær kemur dagur? Ég fullvissaði lítinn Óla um að enn væri langt í það. Kl. 6 var aftur spurt, er núna kominn dagur? Kl. hálf átta vaknaði Ólinn svo alveg og tjáði mér að nú væri kominn dagur, enda sól úti Steinar vaknaði fljótt þegar bróðir hans fór að tala við hann og saman fóru þeir að leika þrátt fyrir tilraunir til að fá þá í morgunverðinn. Loks tókst að fá þá að borðinu og þá fengu þeir bananabrauð í eftirrétt, þeim til mikillar gleði. Ég skilaði þeim með eftirsjá á leikskólann og öfunda hina sem fengu að njóta þeirra restina af vikunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)