Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Góður dagur, með miklum grjótburði :-)

Steinka og Freyja blása úr nösVið Steinka skelltum okkur í göngutúr á eyri inni í Hvalfirði.  Við örkuðum af stað beinar í baki niður brekkuna og fórum svo út á eyrina.  Skömmu síðar vorum við orðnar kengbognar og gengum löturhægt eftir ströndinni, skimandi arnfránum augum eftir fallegum steinum.  Það var heldur enginn skortur af þeim þarna.  Brátt var ég komin með slagsíðu þar sem ég var búin að troða úlpuvasann fullan af grjóti. Alltaf þegar maður hélt að nú væri nóg komið rakst maður á annan stein sem maður bara varð að taka.  Við rétt náðum að lyfta hausnum nógu oft til þess að njóta návistar margæsahópa sem voru að hvíla sig þarna allt um kring.  Freyja var ekki að láta þessa steinatínslu trufla sig við útivistina, hún hljóp fram og til baka alsæl og skellti sér að sjálfsögðu í sjóinn.  Það var líka ansi saltstorkinn feldurinn á henni í lok túrsins.  Við systur gátum varla dregið okkur upp brekkuna aftur, svo þungt var grjótið í vösunum.  Nú veit ég hvernig tilfinning það væri að vera of þung !  Til að toppa góðan dag bauð Steinka mér í mat og ég hámaði í mig gómsætar kjúklingabringur.  Lífið er bara dásamlegt stundum. 


Ræs ræs, best að koma sér fram úr

Kúrt með RunólfiÞað er alveg merkilegt hve erfitt er að komast fram úr rúminu um helgar.  Sængin vefur sig utan um mann eins og kyrkislanga og höfuðið sekkur á bólakaf í koddann eins og um kviksyndi væri að ræða.  Með reglulegu millibili vefur kötturinn Rúnólfur sér utan um hausinn á mér og purrar blíðlega.  Það er ómögulegt að fara á fætur við þessar aðstæður.  Í gærkveldi var ég að spila við Júllu vinkonu og vorum við skrautlegar að sjá, geyspandi í kapp við hvor aðra Smile  Við entumst samt til miðnættis með því að neyta koffeins í formi Hraunbita.  Ég man þá tíð þegar föstudagskvöld var aðaldjammkvöldið og maður kenndi engrar þreytu fyrr en undir morgun.  Nú vill maður helst gera eitthvað á laugardagskvöldum eftir að vera búinn að sofa út og safna kröftum.  Svona er aldurinn farinn að segja til sín.  Spurning hvort ég eigi að reyna að komast í íbúðarskoðun í dag.  Skoðaði tvær í gær - hvorug þeirra öskraði: kauptu mig, kauptu mig!  Í annarri beið mín óvænt sjón á baðherberginu - baðkarið var niðurgrafið !!!  Baðbrúnin nam við gólfflötinn, svo maður varð að stíga niður í það - hversu fljót haldið þið að ég yrði að brjóta útlim vð þessar aðstæður ??  Hin var reyndar með fallegar innréttingar en stóra holan í veggnum við eldhúskrókinn (æ, það lekur inn útfrá veggnum þarna, þetta verður lagað fljótlega) og litla skápalausa barnaherbergið með skrítna þríhyrnta útskotinu gerðu útslagið. Er með 2 íbúðir í viðbót á lista sem ég ætla að skoða.  En fyrst ætla ég að kúra aaaaaðeins lengur Cool


Kisur kisur allsstaðar !

Við mæðgurnar erum umkringdar af kelnum köttum.  Hildu virðist ekki finnast það sérstaklega leiðinlegt Smile

Hilda, Nói og Runólfur slappa afHilda kyssir Matta


Æsispennandi framhaldssaga - fasteignaleitin heldur áfram

Jæja, þá er ég komin á fullt með að skoða.  Búin að skoða þrjár íbúðir undanfarna þrjá daga.  Ein þeirra seldist daginn eftir að ég skoðaði hana - um leið og fréttist að ég skoðaði hana hafa allir auðvitað rokið af stað og viljað eignast hana.  Málið var bara að mig langaði EKKI í hana.  Þessi var í Grafarvoginum en ég skoðaði líka tvær kjallaraíbúðir í Hlíðunum.  Í annarri bjó maður með dóttur sinni og Svanhildi systur langaði mikið að spyrja hvort hann fylgdi ekki bara með íbúðinni.  Ekki hefði það verið til að hvetja mig til að kaupa.  Stór galli á þeirri íbúð var að einungis var innangengt í barnaherbergi frá hjónaherberginu.  Hin íbúðin var með ýmsum göllum svo sem leka í gólfi og í svefnherbergi.  Eigandinn sagði í sífellu: þetta er bara tryggingamál, þeir koma bráðum og kíkja á þetta.... hummmmm.  Hitakompan var á floti út af lekanum og parketið bólgið á stóru svæði.  Rosa spennandi, jájá.  Á morgun skoða ég eina til, spennandi að vita hvort eitthvað sé varið í hana.  Svo framhaldssagan heldur áfram, um ægifagra einhleypa heilbrigðisfulltrúann sem þráir það eitt að eignast heimili.  Fylgist spennt með framhaldinu næstu daga !

Fasteign óskast - hjááálp !

Framtíðarhúsnæðið mittÞað gengur hægt að finna nýjan dvalarstað.  Úrvalið í mínum verðflokki er ekkert til að hrópa húrra fyrir.  Mesta úrvalið er að finna í Fella/Hólahverfinu, en þangað langar mig ekki aftur.  Sá eina íbúð á netinu sem mér leist á, kom í ljós að hún var seld fyrir lööööngu síðan.  Hahaha, bara eitthvað sem hefur óvart slæðst inn hjá okkur, sagði símastúlkan hjá fasteignasölunni.  Hahahah, rosa fyndið.  NOT.  Sé fram á að eyða vetrinum í tjaldi í Laugardalnum með þessu áframhaldi.  Ekki bætir úr skák að íbúðarverð er að hækka, svo ástandið verður bara verra.  Svo ef einhver veit um þokkalega 3 herbergja íbúð á svæðum 104,105,108 og 112 sem hægt er að fá fyrir slikk, látið mig vita.  NB !!  Má ekki vera hærra uppi en 2. hæð nema í lyftuhúsi !  Fnys, enda sennilega í gömlum verkfæraskúr án rennandi vatns...

Vetrarblóm

Vetrarblóm við KleifarvatnVið Steinka systir skelltum okkur með hund og börn að Kleifarvatni að leita að vetrarblómum.  Líkt og lóan eru vetrarblómin kærkominn vorboði og því finnst okkur systrum ómissandi að fara og kíkja á þau blómstrandi upp úr miðjum apríl.  Freyja var hin kátasta með ferðina og hoppaði og skoppaði um allt. Hún hafði hinsvegar takmarkaðan áhuga á vetrarblómunum.  Það var annars óvenjumikið af þeim í ár, stórir brúskar út um allt í klettunum.  Freyja fékk að leika sér við stelpurnar, Hildu og Guðlaugu, en ég bar Steingrím litla sem fékk að prófa að labba á ströndinni.  Hann vildi reyndar labba beint út í stóran poll, en leiðinlega stuðningsmamman leyfði honum það ekki.  Þegar halda átti heim á leið kom babb í bátinn - Freyja vildi ekki koma inn í bílinn aftur Smile   Hún var orðin Steinka, Steingrímur og Freyja við Kleifarvatnglæsileg, búin að vaða út í poll og velta sér í sandinum.  Hún bætti svo um betur og velti sér fram og til baka úti í móa meðan eigandinn elti hana móð og másandi og reyndi að lokka hana til sín með harðfisk.  Eftir mikið þóf tókst loks að ná hrekkjalómnum og við gátum lagt af stað í bæinn.  Nú er ég bæði búin að sjá lóu og vetrarblóm - þá er vorið endanlega komið LoL

Mamma því miður ekki dauð

Eftir að hafa horft á Taggart í kvöld ákvað ég að bjalla í mömmu.  Mér til undrunar svaraði ekki. Það þótti mér ansi furðulegt, sú gamla missir venjulega ekki af slíku sjónvarpsefni.  Ég hringdi því í Svanhildi systur og spurði hvort hún væri nokkuð búin að kála þeirri gömlu.  Nei, ekki vildi hún játa því.  Við höfðum hinsvegar áhyggjur þar sem ekkert hafði heyrst í henni allan daginn.  Ég bað því Svanhildi að tékka á gömlu konunni, aldrei að vita nema hún lægi ósjálfbjarga einhversstaðar í íbúðinni.  Nema hvað, skömmu síðar reyndi ég að hringja en þá var á tali.  Loks náði ég sambandi við gamla flakið.  Hún hafði verið að keyra Atla frænda heim. Ég spjallaði við hana um stund og hringdi svo í Svanhildi systur aftur.  Ég byrjaði símtalið á orðunum: Hún er ekki dauð.  Já, því miður, svaraði systir mín.  Tek það fram að fjölskyldan hefur afar sérstakan máta á að tjá væntumþykju sína.  Okkar símtali lauk með að ég sagði henni að hún væri ljót, hún svaraði: sömuleiðis.  Hvað um það, ég var nú samt fegin að mamma var á lífi.  Þrátt fyrir allan óþokkaskapinn í okkur systrum.

Gleðilegt sumar !!!

Hilda og RunólfurGleðilegt sumar allir nær og fjær LoL  Sólin skín hérna inn um þakgluggann en af biturri reynslu veit ég að þetta er bara gluggaveður.  Veturinn kvaddi með hamförum hér í Reykjavík, húsbrunar og heitavatnsflóð í miðbænum.  Vonandi verður sumarið rólegra !  Hér í Álakvíslinni óskaði Runólfur okkur gleðilegs sumars með því að leggjast yfir andlitin á okkur og mala eins og diesel rafstöð.  Verð að játa að ég hefði kosið að kúra lengur í friði, án kattarhára í nefinu.  En sólin skín og þá er glæpsamlegt að liggja lengur í bælinu.  Best að smella sér á fætur og gera eitthvað af viti.  Eitt að lokum: Munið að skipta út nagladekkjunum (þetta voru umhverfisskilaboð dagsins Wink).


Sársaukafull sjúkraþjálfun

pain_diagramÞegar ég var krakki var það versta sem ég vissi að fara til tannlæknis.  Ég sat á biðstofunni og fann hvernig kvíðahnúturinn í maganum jókst með hverri sekúndu.  Kannski ekkert skrítið að ég hafi verið hrædd, miðað við að einn tannlæknir reif úr mér fullorðinstönn án deyfingar þegar ég var sex (sma mistök!) og annar kæfði mig næstum með flúorsýru sem lak niður í hálsinn á mér. Nú hefur hann Geir Atli tannlæknirinn minn læknað mig af þessari hræðslu og það er bara gaman að fara til tannlæknis í dag.  Í staðinn hef ég þróað með mér hræðslu við aðra heilbrigðisstétt - nefnilega sjúkraþjálfara.  Ég hef nú verið í sjúkraþjálfun í bráðum 2 mánuði og með hverju skipti eykst kvíðinn og ég hrekk í kút þegar ég er kölluð inn. Sjúkraþjálfarinn minn er afar alúðlegur og skemmtilegur, virðist í raun vera fullkomlega venjulegur, góður maður. EN... sannleikurinn kemur í ljós þegar hann fer í gang með meðferðina.  Hann beitir höndum og fótum á listilegan hátt til að ná fram sem mestum sársauka.  Ég þarf að taka á öllu mínu að snúa mér ekki við og reyna að kyrkja hann.  Reyndar hugsa ég að hann næði að kála mér fyrst...  Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að þó vissulega séu til nóg af tannlæknum sem eru algerir sadistar, þá komast þeir ekki með tærnar þar sem sjúkraþjálfarar hafa hælana.  KGB, Stasi og Rauðu Kmerarnir hefðu átt að ráða sjúkraþjálfara til starfa við pyntingar - þeir hefðu slegið í gegn.  En áfram held ég að fara til sjúkraþjálfarans - enda það merkilega er að eftir allar þjáningarnar er ég miklu betri.  Hef ekkert haltrað í 2 vikur !!!  Þannig að kannski eru sjúkraþjálfarar sadistar en þjóðfélagslega nauðsynlegur hópur.  Vika í næstu meðferð - hlakka ekki til en bráðum verð ég orðin svo góð að ég fer að geta steppað.  En það kostar blóð, svita og tár !

Stuð á árshátíð

Við Magnea í allri okkar dýrðÞað var fantastuð á árshátíðinni í gær.  Örn Árnason var veislustjóri og hélt uppi fjörinu.  Sorphirðan kom með flott skemmtiatriði og hljómsveitin Sviss var bara mjög góð.  Ég dansaði smá þrátt fyrir fótaeymsli, það kostar sitt fyrir ónýtu ökklana að vera í spariskóm.  Kjóllinn og greiðslan voru geðveikt flott, ég fer sko aftur í greiðslu til Sillu fyrir næstu árshátíð Smile  Party on !

Helga sæta


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband