27.6.2008 | 22:08
Súpusprengingin mikla
Um daginn ákvað ég af myndarskap mínum að sjóða grænmetissúpu til að taka með sem nesti í vinnuna. Ég bjó til nóg til að geta fryst fleiri skammta til að eiga til góða. Ég jós súpunni í ílát og var eitthvað að vesenast meðan hún var að kólna. Loks taldi ég að hægt væri að loka ílátunum og setja þau í frystinn og ísskápinn. Vel gekk með það sem fór í frystinn, það hagaði sér allt skikkanlega. Vandræðin byrjuðu þegar ég smellti Tupperware skálinni með lokinu inn í kælinn.... Á því augnabliki sem ég setti skálina inn þeyttist lokið af með háum smell og súpan spýttist út um allan ísskáp. Drjúgur skammtur lenti á mér og strax myndaðist myndarlegur pollur á gólfinu. Fyrst stóð ég og starði. Síðan viðhafði ég orðbragð sem ekki hæfir dömu (en þar sem ég er engin dama var þetta bara allt í lagi). Það var ótrúlegt hve mikið af súpu var í þessari blessuðu skál. Þegar hún var sloppin út var eins og um tugi lítra væri að ræða. Ég þurfti að þurrka, þrífa og skola allt í 2 m radíus frá ísskápnum. Á kálfanum á mér kúrði eitt klettasalatsblað og á ristinni á mér var blómkál. Eftir mikinn barning lauk þrifunum og er ísskápurinn nú glansandi hreinn og flottur. Hagsýna og hæfileikaríka húsmóðirin brá sér í sturtu. Kannski var súpan enn of heit...?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.