21.4.2007 | 17:25
Vetrarblóm
Við Steinka systir skelltum okkur með hund og börn að Kleifarvatni að leita að vetrarblómum. Líkt og lóan eru vetrarblómin kærkominn vorboði og því finnst okkur systrum ómissandi að fara og kíkja á þau blómstrandi upp úr miðjum apríl. Freyja var hin kátasta með ferðina og hoppaði og skoppaði um allt. Hún hafði hinsvegar takmarkaðan áhuga á vetrarblómunum. Það var annars óvenjumikið af þeim í ár, stórir brúskar út um allt í klettunum. Freyja fékk að leika sér við stelpurnar, Hildu og Guðlaugu, en ég bar Steingrím litla sem fékk að prófa að labba á ströndinni. Hann vildi reyndar labba beint út í stóran poll, en leiðinlega stuðningsmamman leyfði honum það ekki. Þegar halda átti heim á leið kom babb í bátinn - Freyja vildi ekki koma inn í bílinn aftur
Hún var orðin glæsileg, búin að vaða út í poll og velta sér í sandinum. Hún bætti svo um betur og velti sér fram og til baka úti í móa meðan eigandinn elti hana móð og másandi og reyndi að lokka hana til sín með harðfisk. Eftir mikið þóf tókst loks að ná hrekkjalómnum og við gátum lagt af stað í bæinn. Nú er ég bæði búin að sjá lóu og vetrarblóm - þá er vorið endanlega komið
Athugasemdir
Ég nefni það í bloggi í dag að ég leiti að góðum stað til að leyfa hundunum mínum að leika lausum hala þar sem ekki er stöðugur straumur fólks. Myndir þú mæla með Kleifarvatni í þessum tilgangi. P.S. Ég er fegin að mamma þín valdi ekki daginn í gær til að hrökkva uppaf... svona bara ykkar systranna vegna.
Jóna Á. Gísladóttir, 21.4.2007 kl. 18:03
Ef þú ferð í fjöruna við Stefánshöfða er þar mikil sandfjara sem er fín fyrir hunda að hlaupa í og skemmta sér. Einnig eru fleiri fjörur sem eru fín hundasvæði. Við systur erum reyndar ánægðar með að mamma skyldi halda lífi - kaldhæðni og að tala bak hug sínum er hinsvegar eitthvað sem er einkennismerki fjölskyldunnar
Svava S. Steinars, 21.4.2007 kl. 18:10
Sæl kæra Svava. Hlakka til að sjá þig í heimsókn á Selfoss. Við fáum húsið 1.maí og byrjum að mála. Ertu komin með hund ? (og kött og kanínu ) Við þurfum greinilega að fara að hittast.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 21.4.2007 kl. 18:48
Hundurinn er reyndar í eigu systur minnar, kettirnir í eigu annarar systur en kanínan, stökkmýsnar og skjaldbakan eru sannarlega mín dýr. Líst vel á að kíkja á Selfoss !
Svava S. Steinars, 21.4.2007 kl. 23:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.