Á einhver góðan lukkugrip sem hann er ekki að nota ?

feb07 002Kvöldið varð viðburðarríkara en ég hafði gert ráð fyrir.  Ég var búin að plana rólegt dekurkvöld þar sem Svava myndi vera góð við Svövu, fá sér gott að borða, lesa, fara í heitt bað osfrv.  Nema hvað, ég keypti BBQ svínarif sem þurfti bara að hita (nennti ekki að eyða löngum tíma í eldamennsku !) og skellti þeim í eldfast fat og inn í ofn.  Að liðnum hæfilegum tíma tók ég fatið út og setti það á eldavélina.  Ég smellti rifjunum á diskinn minn og bar svo fatið að vaskinum og setti það niður í þurran, tóman vaskinn.  Á þeirri sekúndu sem ég sleppti á því takinu sprakk fatið í þúsund mola.  Eftir stóð ég með aulalegan undrunarsvip á andlitinu (nú er ég að ímynda mér, sá ekki svipinn en amk leið mér afar aulalega, og ég var mjööög undrandi).  Ég starði með vantrú á vaskinn sem var fullur af glerbrotum og svo leit ég í kringum mig.  Það voru glerbrot langt út á gang og nokkur höfðu líka endað í hárinu á mér.  Ótrúleg heppni að ekkert fór í augun á mér !  Ryksugan mín dó síðustu helgi svo ég þurfti að sópa öllu upp með litlum handsóp og moka upp úr vaskinum með gamalli tusku.  Brotin setti ég í lítinn pappakassa sem ég hugðist svo loka með límbandi þegar öll brotin voru loksins komin í hann.  Ég sneri mér við og um leið glopraði ég kassanum úr höndunum beint í gólfið.  Glerbrotin þeyttust út um allt.  Ég fann hvernig gleðin streymdi um æðar mér ... þetta var einmitt það sem vantaði.  Ég bisaði við að sópa öllu upp aftur en tók svo eftir því að þegar ég hreyfði mig um komu rauðir flekkir á gólfið.  Jújú, mér hafði tekist að skera mig á stóru tánni.  Fullkomið !  Loks tókst mér að pakka fjárans brotunum inn og ligg nú inni í rúmi með auma tá og sötra rauðvín (er svo blóðaukandi, verð að bæta mér upp það sem fór á eldhúsgólfið).  Ég lýsi hér með eftir góðum lukkugrip (ekki kanínufæti samt) til að reyna að bægja frá mér fleiri óhöppum.  Ekki veitir af.  Ef ég þekki sjálfa mig rétt mun næsta óhapp leiða til beinbrota.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Æ, elskan mín ... fóru nokkur glerbrot á matardiskinn?

Kvöldið mitt var betra ... verða að segja það, færslan kemur inn eftir smá!!! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.2.2007 kl. 23:23

2 Smámynd: Svava S. Steinars

Nei, það besta var að rifin góðu voru í hæfilegri fjarlægð og ég gat hámað þau í mig inni í stofu

Svava S. Steinars, 4.2.2007 kl. 01:34

3 identicon

Skil ekki hvað er svo óvenjulegt við þetta, venjulega þegar ég elda missi ég öll áhöld í gólfið og drjúgan skerf af matnum, svína mig alla út, brýt reyndar ekki alltaf eitthvað, en það gerist reglulega... þetta er næstum því another day in the kitchen fyrir mér...

margret steinarsdottir (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband