Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
12.10.2009 | 19:54
Frábært hugleiðslunámskeið síðustu helgi :)
Síðustu helgi var ég á hugleiðslunámskeiði. Það var haldið í húsi Tolla listmálara við Meðalfellsvatn, alveg dásamlegt umhverfi. Fyrrum búddamunkurinn Choden kom frá Samye Ling klaustrinu í Skotlandi og kenndi okkur eitt og annað um mindfulness og hugleiðslu. Á föstudeginum vorum við reyndar heima hjá Dagmar Völu hugleiðslukennara þar sem brjálað rok stoppaði okkur í að komast upp í Kjós ! Choden er frábær kennari og afar skemmtilegur og indæll maður. Aðstaðan var frábær, í bjartri og fallegri vinnustofu málarans. Dekrað var við okkur með góðum mat og meðlæti með kaffi milli þess sem við fengum kennslu og hugleiddum. Án efa hafa nágrannarnir orðið hissa ef þeir hafa séð okkur í gönguhugleiðslu (walking meditation), en þar göngum við um steinþegjandi og einbeitum okkur að göngunni, erum eins og uppvakningar á röltinu
Við lærðum margt nytsamlegt auk þess að hlaða batteríin fyrir komandi vikur. Tókum nokkrar yogaæfingar líka til að hressa okkur eftir seturnar. Rokið dundi reyndar líka á okkur á laugardaginn og þá sáum við vatnið rjúka upp úr Meðalfellsvatninu og mynda dansandi ský yfir vatnsfletinum, alveg einstakt ! Tvær svanafjölskyldur svömluðu rétt undan landi alla helgina og hjálpuðu til við að skapa góða stemningu. Skemmtilegt var að heimiliskötturinn Kambur hugleiddi með okkur um helgina, kom og nuddaði sér upp við alla og lagðist svo nálægt kennaranum og naut kennslunnar
Er afar ánægð með þessa frábæru helgi í góðum félagsskap
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2009 | 17:11
Haustferð starfsmanna umhverfis- og samgöngusviðs
Á föstudaginn fórum við starfsmenn hjá USR í Borgartúni í skemmtilega haustferð. Farið var fyrst út á Reykjanesið og hverasvæðið við Krýsuvík skoðað. Næst var farið að Grænavatni og svo keyrt sem leið lá að Ölfusárósum til að skoða brimið. Veðrið var nú ekki upp á sitt besta enda spáð stormi við suðurströndina, við létum það þó ekki á okkur fá og skoðuðum allt þó svo allir yrði frekar blautir og veðurbarðir við það. Hrakningunum var þó lokið á næsta stoppistað, þar fórum við inn í bruggverksmiðjuna Ölvisholti. Þar kynntumst við framleiðslunni á nokkrum eðal íslenskum bjórum; Móra, Freyju, Skjálfta og Lava. Við fengum að smakka á vegunum og tókst þannig að ná í okkur góðum yl eftir kuldann fyrr um daginn. Þvínæst var haldið inn á Selfoss á veitingastaðinn Menam og þar var snæddur góður kvöldverður. Við klykktum svo út með því að fara á Kaffi Krús og fara þar í partíleiki. Fyrst var farið í hvíslleik og var afar gaman að sjá hvað kom út þegar orðin voru búin að fara heilan hring um borðið
Svo var farið í leik þar sem fólk átti að draga föt úr poka og fara í ef það hitti á að vera með skeið sem gekk hringinn þegar að hljóðmerki var gefið. Sumir urðu ansi skrautlegir í þessum leik. Við héldum svo í bæinn rétt fyrir ellefu, þreytt og sæl eftir góðan dag. Birti hér með nokkrar myndir úr þessari frábæru ferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)