12.10.2009 | 19:54
Frábært hugleiðslunámskeið síðustu helgi :)
Síðustu helgi var ég á hugleiðslunámskeiði. Það var haldið í húsi Tolla listmálara við Meðalfellsvatn, alveg dásamlegt umhverfi. Fyrrum búddamunkurinn Choden kom frá Samye Ling klaustrinu í Skotlandi og kenndi okkur eitt og annað um mindfulness og hugleiðslu. Á föstudeginum vorum við reyndar heima hjá Dagmar Völu hugleiðslukennara þar sem brjálað rok stoppaði okkur í að komast upp í Kjós ! Choden er frábær kennari og afar skemmtilegur og indæll maður. Aðstaðan var frábær, í bjartri og fallegri vinnustofu málarans. Dekrað var við okkur með góðum mat og meðlæti með kaffi milli þess sem við fengum kennslu og hugleiddum. Án efa hafa nágrannarnir orðið hissa ef þeir hafa séð okkur í gönguhugleiðslu (walking meditation), en þar göngum við um steinþegjandi og einbeitum okkur að göngunni, erum eins og uppvakningar á röltinu
Við lærðum margt nytsamlegt auk þess að hlaða batteríin fyrir komandi vikur. Tókum nokkrar yogaæfingar líka til að hressa okkur eftir seturnar. Rokið dundi reyndar líka á okkur á laugardaginn og þá sáum við vatnið rjúka upp úr Meðalfellsvatninu og mynda dansandi ský yfir vatnsfletinum, alveg einstakt ! Tvær svanafjölskyldur svömluðu rétt undan landi alla helgina og hjálpuðu til við að skapa góða stemningu. Skemmtilegt var að heimiliskötturinn Kambur hugleiddi með okkur um helgina, kom og nuddaði sér upp við alla og lagðist svo nálægt kennaranum og naut kennslunnar
Er afar ánægð með þessa frábæru helgi í góðum félagsskap
Athugasemdir
Þetta er æðislegt að sjá. Ég vildi hafa verið þarna með þér.
Steingerður Steinarsdóttir, 14.10.2009 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.