30.6.2009 | 01:39
Dásamleg ferð um Norðurland
Fyrir rúmri viku skellti ég mér til Ólafsfjarðar með Hildu, Svanhildi systur, Ragnari manninum hennar og sætustu frændum í heimi, þeim Óla og Steinari. Við gistum í gömlu húsi rétt fyrir utan bæinn, sem stóð í hlíð fyrir ofan Ólafsfjarðarvatnið. Frábært útsýni, dásamlega fallegt á kvöldin að horfa út að þorpinu þegar sólin var að setjast, fjöllin spegluðust í vatninu og skýin loguðu í mismunandi litum. Eigandi hússins er greinilega nokkuð sérvitur, í því var dágott safn af gömlum þvottavélum, eldavélum, hraðsuðukötlum, hrærivélum og vogum. Það að safna gömlum heimilistækjum er ansi sérstakt áhugamál! María vinkona býr á Ólafsfirði og bauð hún okkur í kaffi einn daginn, okkur til gleði og ánægju. Strákunum fannst ekki leiðinlegt að hitta Björn son hennar sem er á sama aldri. Við ferðuðumst um svæðið vítt og breitt. Auðvitað var farið inn á Akureyri, borðaður Brynjuís og farið í lystigarðinn. Svo fórum við inn á Siglufjörð og skoðuðum Síldarminjasafnið. Það var afar áhugavert, sjá gömlu tækin, fatnaðinn og aðbúnað verkafólksins. Það var ótrúlegt að sjá gamlar ljósmyndir þar sem himinháar tunnustæður þöktu hverja bryggju! Næst var haldið á Hofsós og þar skoðuðum við Vesturfarasetrið. Það var mjög áhugavert að sjá sögu fólksins, myndir af nýja lífinu í Ameríku og sjá gömul sendibréf. Sama dag fórum við til Dalvíkur og þar fóru allir í sund nema við systur, sem rúntuðu um bæinn og borðuðum ís í staðinn :) Síðasta daginn okkar fórum við til Árskógssands og sigldum þaðan út í Hrísey. Þar snæddum við á veitingahúsinu Brekku, töltum um þorpið, skoðuðum kirkjuna og hittum ógrynni af stelkum og jaðrakönum í móunum fyrir ofan þorpið. Á heimleiðinni sáum við Hilda branduglu við Dalvík, gaman að sjá svona sjaldséðan fugl Síðasta daginn, föstudag, var svo brunað í bæinn. Frábær ferð í alla staði enda fallegt á Norðurlandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.