17.4.2007 | 22:04
Sársaukafull sjúkraþjálfun
Þegar ég var krakki var það versta sem ég vissi að fara til tannlæknis. Ég sat á biðstofunni og fann hvernig kvíðahnúturinn í maganum jókst með hverri sekúndu. Kannski ekkert skrítið að ég hafi verið hrædd, miðað við að einn tannlæknir reif úr mér fullorðinstönn án deyfingar þegar ég var sex (sma mistök!) og annar kæfði mig næstum með flúorsýru sem lak niður í hálsinn á mér. Nú hefur hann Geir Atli tannlæknirinn minn læknað mig af þessari hræðslu og það er bara gaman að fara til tannlæknis í dag. Í staðinn hef ég þróað með mér hræðslu við aðra heilbrigðisstétt - nefnilega sjúkraþjálfara. Ég hef nú verið í sjúkraþjálfun í bráðum 2 mánuði og með hverju skipti eykst kvíðinn og ég hrekk í kút þegar ég er kölluð inn. Sjúkraþjálfarinn minn er afar alúðlegur og skemmtilegur, virðist í raun vera fullkomlega venjulegur, góður maður. EN... sannleikurinn kemur í ljós þegar hann fer í gang með meðferðina. Hann beitir höndum og fótum á listilegan hátt til að ná fram sem mestum sársauka. Ég þarf að taka á öllu mínu að snúa mér ekki við og reyna að kyrkja hann. Reyndar hugsa ég að hann næði að kála mér fyrst... Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að þó vissulega séu til nóg af tannlæknum sem eru algerir sadistar, þá komast þeir ekki með tærnar þar sem sjúkraþjálfarar hafa hælana. KGB, Stasi og Rauðu Kmerarnir hefðu átt að ráða sjúkraþjálfara til starfa við pyntingar - þeir hefðu slegið í gegn. En áfram held ég að fara til sjúkraþjálfarans - enda það merkilega er að eftir allar þjáningarnar er ég miklu betri. Hef ekkert haltrað í 2 vikur !!! Þannig að kannski eru sjúkraþjálfarar sadistar en þjóðfélagslega nauðsynlegur hópur. Vika í næstu meðferð - hlakka ekki til en bráðum verð ég orðin svo góð að ég fer að geta steppað. En það kostar blóð, svita og tár !
Athugasemdir
Hljómar eins og lýsing á mínum sjúkraþjálfara, læturðu nokkuð pynta þig í Skipholtinu? Ég spurði hann um daginn hvort að hann hefði eytt miklum tíma í að kynna sér störf spænska rannsóknarréttarins. Hann neitaði því ekki... Kveðja úr Hafnarfirðinum, Jóhanna Ósk
Jóhanna Ósk Valsdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 18:19
Hahahah, hann er reyndar í Orkuhúsinu - en hefur örugglega farið á námskeið hjá spænska rannsóknarréttinum eins og þinn
Svava S. Steinars, 29.4.2007 kl. 01:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.