3.4.2007 | 18:11
Peningaþvætti í Álakvísl
Á sunnudaginn smellti ég úlpunni minni í þvott. Það hefði sjálfsagt ekki verið í frásögur færandi nema vegna þess að ég gleymdi einu litlu smáatriði. Sem var að fjarlægja veskið mitt úr innanávasanum áður en úlpan fór í vélina. Mistökin uppgötvaði ég mér til skelfingar þegar ég tók úlpuna út úr vélinni og fann fyrir kunnuglegri bungu þar sem vasinn er. Veskið var ekki upp á marga fiska í útliti eftir þetta en það var mesta furða hvað innihaldið hélt sér vel. Sundkortin og afsláttarkortin mín voru að vísu nokkuð sjúskuð, nótan sem ég tók fyrir bensíni daginn áður var í hvað verstu ástandi. Ein tölvuprentuð mynd af barni var ónýt. Stóra spurningin var - virka debet og kreditkortin ????? Stund sannleikans rann upp í gær. Ég lét renna kreditkortinu í gegn til að greiða fyrir nýtt veski. Viti menn !! Það virkaði ! Sama gerði debetkortið sem ég prófaði skömmu seinna. Afleiðingar veskisþvottsins voru því ekki svo slæmar og ég á nú hreinustu kort Íslands, amk um stund. Hef hinsvegar ákveðið að halda mig á beinu brautinni hér eftir og stunda ekki frekara peningaþvætti.
Athugasemdir
Glæpón!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 3.4.2007 kl. 21:35
Ekki við öðru að búast af síbrotakonu. Að sjálfsögðu stundar hún peningaþvætti þegar færi gefst.
Steingerður Steinarsdóttir, 4.4.2007 kl. 09:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.