4.4.2010 | 17:13
Eldfjallaferð hin fyrri
Sunnudaginn 28. mars skelltum við Júlíana vinkona okkur í ferð á eldfjallaslóðir. Við keyrðum af stað á mínum fjallabíl (Nissan Almera) og brunuðum sem leið lá inn í Fljótshlíð. Þegar þangað kom var ljóst að við kæmumst ekki á góðan útsýnisstað nema að keyra yfir eina á og það var litli Nissaninn minn ekki tilbúinn til að gera. Um klukkustundargangur var í útsýnisstað sagði fólk á staðnum en við Júlíana ákváðum að ganga aðeins upp að Þórólfsfelli og sjá hvort við sæjum eitthvað betur. Við löbbuðum af stað voða fínar í hlýjum fötum með göngustafi. Eftir ca. 3 mínútur sáum við að þetta var ekki að ganga, vorum þegar frosnar inn að beini og Júlla ennþá hundlasin. Ég gekk því að veginum og rak þumalinn upp í loftið. Viti menn, jeppi nr. 2 tók okkur upp í ! Þar voru á ferðinni miðaldra hjón með uppkomna dóttur og þau keyrðu okkur út að besta útsýnisstaðnum til móts við Húsadal í Þórsmörk. Við sáum nýja fellið og hraunslettur skjótast út til hliðar við það. Þar sem það var hábjartur dagur og sólskin var erfitt að sjá eldinn sjálfan, aðeins sást glitta í rautt í hraunstraumnum frá fellinu. Við fengum svo far aftur að vaðinu og þökkuðum þeim hjónum kærlega fyrir
Var gaman að sjá hraunið slettast en við ákváðum að bíða myrkurs til að sjá bjarmann af gosinu. Nema hvað, þá skall á sandstormur og skyggni var nákvæmlega ekkert. Við borðuðum því bara á Selfossi og héldum svo í bæinn, þreyttar en ánægðar með ævintýradag.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.