Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Á einhver góðan lukkugrip sem hann er ekki að nota ?

feb07 002Kvöldið varð viðburðarríkara en ég hafði gert ráð fyrir.  Ég var búin að plana rólegt dekurkvöld þar sem Svava myndi vera góð við Svövu, fá sér gott að borða, lesa, fara í heitt bað osfrv.  Nema hvað, ég keypti BBQ svínarif sem þurfti bara að hita (nennti ekki að eyða löngum tíma í eldamennsku !) og skellti þeim í eldfast fat og inn í ofn.  Að liðnum hæfilegum tíma tók ég fatið út og setti það á eldavélina.  Ég smellti rifjunum á diskinn minn og bar svo fatið að vaskinum og setti það niður í þurran, tóman vaskinn.  Á þeirri sekúndu sem ég sleppti á því takinu sprakk fatið í þúsund mola.  Eftir stóð ég með aulalegan undrunarsvip á andlitinu (nú er ég að ímynda mér, sá ekki svipinn en amk leið mér afar aulalega, og ég var mjööög undrandi).  Ég starði með vantrú á vaskinn sem var fullur af glerbrotum og svo leit ég í kringum mig.  Það voru glerbrot langt út á gang og nokkur höfðu líka endað í hárinu á mér.  Ótrúleg heppni að ekkert fór í augun á mér !  Ryksugan mín dó síðustu helgi svo ég þurfti að sópa öllu upp með litlum handsóp og moka upp úr vaskinum með gamalli tusku.  Brotin setti ég í lítinn pappakassa sem ég hugðist svo loka með límbandi þegar öll brotin voru loksins komin í hann.  Ég sneri mér við og um leið glopraði ég kassanum úr höndunum beint í gólfið.  Glerbrotin þeyttust út um allt.  Ég fann hvernig gleðin streymdi um æðar mér ... þetta var einmitt það sem vantaði.  Ég bisaði við að sópa öllu upp aftur en tók svo eftir því að þegar ég hreyfði mig um komu rauðir flekkir á gólfið.  Jújú, mér hafði tekist að skera mig á stóru tánni.  Fullkomið !  Loks tókst mér að pakka fjárans brotunum inn og ligg nú inni í rúmi með auma tá og sötra rauðvín (er svo blóðaukandi, verð að bæta mér upp það sem fór á eldhúsgólfið).  Ég lýsi hér með eftir góðum lukkugrip (ekki kanínufæti samt) til að reyna að bægja frá mér fleiri óhöppum.  Ekki veitir af.  Ef ég þekki sjálfa mig rétt mun næsta óhapp leiða til beinbrota.

Við myndum ekki eiga sjö dagana sæla í Þýskalandi..

Systir vinkonu minnar hefur búið í Þýskalandi í nokkur ár.  Á þessum árum hefur hún kynnst innfæddum vel og hefur komist að því að ekki eru sömu siðir í hverju landi.  Eitt af því sem þjóðverjum finnst verulega ógeðslegt er þegar fólk sýgur upp í nefið.  Sömu þjóðverjum finnst hinsvegar ekkert að því að svipta upp vasaklút og snýta sér hressilega við matarborðið.  Get ímyndað mér upplitið á fólki í íslensku matarboði ef maður gerði slíkt hið sama.  Um þessar mundir er ég stífluð af nefkvefi og mætti í vinnuna fremur framlág, sjúgandi upp í nefið í sífellu og alls ekki í stuði með guði.  Eftir að ég hafði setið í básnum mínum nokkra stund fór ég að hlusta á umhverfishljóðin.  Soghljóð bárust úr öllum áttum !  Annar hver maður hér er líka kvefaður þannig að vinnustaðurinn er orðin eins og martröð siðprúðra þjóðverja.  En til allrar lukku erum við á Íslandi og getum sogið upp í nefið af bestu lyst.  Snuff ! 

Tak sæng þína og gakk og komdu þér burt í einum grænum og finndu þér einhvern annan stað í bænum !

Hrmph !  Eftir að blogger fluttist yfir á Google hefur það verið bölvað vesen að reyna að blogga.  Ég þarf að tvískrá mig inn og oftar en ekki hverfa færslurnar skyndilega þegar ég ætla að birta þær.  Því tók ég hatt minn og staf, fékk mér nesti og nýja skó og flutti allt mitt hafurtask yfir á þessa síðu.  Fékk þessa hugmynd eftir að Gurrí vinkona hvarf skyndilega af blogger og birtist fílefld á blog.is.  Ég ætla núna að drífa mig í bælið en að lokum vildi ég birta mynd sem ég nappaði af vef Aftonbladet í Svíþjóð en hún er af snjólistaverkum sem gerð voru víðsvegar um landið.  Heja Sverige segi ég nú bara...Sænsk snjólistaverk..


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband