28.4.2009 | 23:21
Óli og Steinar í pössun
Ég var svo stálheppin síðasta mánudagskvöld að fá litlu frændur mína þá Óla og Steinar til mín í pössun. Foreldrarnir voru að fara til Þýskalands og drengjunum var deilt niður á æsta ættingja á meðan á ferðinni stóð. Ég
fékk fyrsta kvöldið
Þegar ég sótti þá voru þeir skv. mömmunni tilbúnir til að fara beint að sofa. Þegar heim var komið kom í ljós að þeir höfðu önnur plön. Þeir brunuðu inn í stofu og drógu fram allt dótið sem þeir hafa leikið sér að í fyrri heimsóknum. Fljótlega var stofugólfið þakið dóti og hressir drengir hlustuðu ekki á neinar tillögur um að kíkja í rúmið. Að lokum tókst mér að lokka þá í náttföt og þá fóru þeir að leika sér að jógaboltanum mínum. Eftir
nokkur slagsmál kom ég þeim inn í rúmið mitt og las fyrir þá. Ég fór svo fram að baka bananabrauð en var trufluð á nokkurra sekúndna fresti af spurningaregni og heimsóknum frá litlum piltum
En jafnvel hörðustu hetjur verða að gefast upp, Óli sofnaði fyrst og skömmu síðar lítill Steinar sem náði þó að skjótast einu sinni enn fram í eldhús að fylgjast með bakstrinum. Kl. hálf fimm um nóttina rumskaði ég þegar lítil rödd spurði: Svava, hvenær kemur dagur? Ég fullvissaði lítinn Óla um að enn væri langt í það. Kl. 6 var aftur spurt, er núna kominn dagur? Kl. hálf átta vaknaði Ólinn svo alveg og tjáði mér að nú væri kominn dagur, enda sól úti
Steinar vaknaði fljótt þegar bróðir hans fór að tala við hann og saman fóru þeir að leika þrátt fyrir tilraunir til að fá þá í morgunverðinn. Loks tókst að fá þá að borðinu og þá fengu þeir bananabrauð í eftirrétt, þeim til mikillar gleði. Ég skilaði þeim með eftirsjá á leikskólann og öfunda hina sem fengu að njóta þeirra restina af vikunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.