26.12.2008 | 03:26
Skemmtileg jólahátíð með smá ævintýrum
Jæja, jólahátíðin er gengin í garð, aðfangadagur og jóladagur liðnir og ég ligg upp í rúmi pakksödd og alsæl. Ég vaknaði um hádegi á aðfangadag og dundaði mér við að gera það síðasta, skrapp í búð og slappaði af. Ég fór svo út í kirkjugarð um klukkan fjögur að setja grein og ljós á leiðið hans pabba. Veðurguðirnir voru mér ekki hliðhollir, fyrst kom hellidemba, síðan var hávaðarok. Það kostaði nokkur slagsmál að kveikja á kertinu, það tókst loks með því að nota kerti af nágrannaleiði. Vona að viðkomandi fyrirgefi mér orðin sem ég missti út úr mér þegar slokknaði á kertinu í 10. sinn. Vel vindþurrkuð hélt ég til baka í bæinn og þar tókst Júlíönu vinkonu að gefa mér hjartaáfall, ég misskildi hana aðeins með hvar ég ætti að hitta hana og hún kom skyndilega aftan að mér þegar ég hélt hún væri sjö hæðum fyrir ofan mig. Ég lifði þetta nú af og við mamma fórum til Steinku systur þar sem við eyddum jólunum. Helen systir, Atli sonur hennar og Andri sonur Steinku og Gumma voru þarna líka. Ekki má gleyma ferfætlingunum, kisurnar sátu og vöktuðu rækjurnar sem verið var að þíða handa þeim í vaskinum og hundurinn Freyja vaktaði kjötið
Jólamaturinn var hreint dásamlegur. Hreindýrakjöt og gæs. Ég hef lítið prófað hreindýrakjöt um ævina en þvílíkt lostæti. Í hvert sinn sem ég tók bita heyrði ég englakór syngja Haleljújah inni í hausnum á mér. Súkkulaði og Toblerone ísarnir voru svo punkturinn yfir i-ið og komman yfir ó-ið. Takk kærlega fyrir mig, elsku Steinka og Gummi
Svo kom að því að opna pakkana. Andri frændi las á pakkana og ég ákvað að beygja mig eftir nokkrum pökkum til að rétta honum. Þá heyrðist hátt RIIIIIPP ! hljóð og buxurnar mínar rifnuðu á rassinum, frá klofi og upp að buxnastreng. Vart þarf að taka fram að þetta vakti afar mikla lukku og gleði hjá fjölskyldunni. Ég settist snögglega niður og hafði mig lítið í frammi það sem eftir var af pakkaupptöku. Hilda kom svo með pabba sínum og gjöfin hennar bjargaði öllu. Hún gaf mér fallegan fjólubláan klút sem ég breytti þegar í pils með því að hnýta hann yfir buxurnar. Þar með sluppu allir við að horfa á naríurnar mínar. Aðaldrama kvöldsins var þó eftir. Þegar við mamma ætluðum að halda heim á leið, ánægðar eftir góðan dag, kom í ljós að sú gamla var læst úti ! Hún hafði gleymt að taka lyklana sína með og einu aukalyklarnir reyndust vera með nöfnu hennar og barnabarni úti í Brussel. Það var því ekki um annað að ræða en að kalla á neyðarþjónustu lásasmiðs, þar ruku 8 þúsund út um gluggann!! Ég kom heim rétt fyrir eitt og kúrði mig niður með kanínunni. Ég fékk góðar gjafir: Scrabble rekka úr tré, tvo klúta (einn spari), tvo borðdúka, tvær bækur, lítinn fugl og kertastjaka frá Gler í Bergvík. Lífið er ljúft um jólin og ég nýt þess að vaka lengi og sofa út. Eigið góðar stundir !
Athugasemdir
Gleðileg jól elsku druslan mín!
er ekki til mynd af þér í rifnu buxunum? Þetta hefði ég mjög gjarnan viljað sjá!!!
Jólin hjá okkur hafa farið í tvær mismunandi en álíka leiðinlegar pestir..... mrrrrrrf
Kristín Anna (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 09:28
Gleðileg jól kæra Svava mín.
Við biðjum öll að heilsa frá Selfossi.
Inga, Valgeir, kötturinn Alexandra og naggrísinn Goggi (Gogol).
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 29.12.2008 kl. 03:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.