4.4.2008 | 00:08
Svimadýrið Svava
Undanfarnar 3 vikur hef ég verið að kljást við fremur hvimleiðan kvilla. Mig svimar ef ég beygi mig niður, einnig ef ég ligg út af og sný mér yfir á aðra hvora hliðina. Sérstaklega er þetta slæmt þegar ég sný mér til hægri. Orsökin er hressileg vöðvabólga í öxlum og hálsi. Þessu hafa fylgt nokkrar sjóntruflanir, sumar ansi athyglisverðar. Eins og stóri bletturinn með litríku brúnunum sem ég hélt áfram að sjá með lokuð augun. Og einu sinni sá ég í móðu með hægra auganu meðan allt gekk í bylgjum í hinu. Aðrar skemmtilegar aukaverkanir eru smellir í eyrum og lömun hægri handarinnar sem til allrar lukku stóð bara í sólarhring. Ég hringdi auðvitað um leið og fór að bera á þessu og reyndi að fá tíma í sjúkraþjálfun. Ég fékk tíma 2. apríl - 2 og hálfri viku frá pöntunardegi. Er ekki hægt að fá tíma fyrr, ég er mjög slæm, vældi ég við símastúlkuna. Það eru allir mjög slæmir, svaraði hún þurrlega og þar við sat. Í gær byrjaði loksins þjálfunin og í fyrstu snöggversnaði mér. Síðan fékk ég annan tíma í morgun og þá varð ég hreinlega svo slæm að ég hélt ég myndi líða út af. Hálftíma eftir tímann heyrðist "plop" í hægra eyranu og skyndilega heyrði ég mun betur ! Var s.s. búin að vera með hellu fyrir eyranu í 3 vikur án þess að átta mig á því! Í kjölfarið leið mér líka miklu betur. Að vísu hefur smá svimi komið aftur í kvöld en þetta er allt á réttri leið. Það verður sko haldið partí daginn sem mér batnar af þessum andskota ! Plíng! Örbylgjuofninn kallar, þarf að sækja grjónapúðann fyrir axlirnar :) Góðar stundir :
Athugasemdir
Hæ Svava,
Vissi ekki að vöðvabólga gæti verið svona svæsin. Lýsingin á blettunum fyrir augunum er ekki góð, en gott að þetta er að lagast. Verum í sambandi.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 4.4.2008 kl. 00:15
heyri væntanlega í þér þegar þér batnar fyrst það verður partý
annars bara góðan bata vinkona, farðu vel með þig !!!
Rebbý, 4.4.2008 kl. 18:52
Aumingja svimadýrið mitt svakalega. Góðan bata.
Steingerður Steinarsdóttir, 6.4.2008 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.