25.12.2007 | 01:21
Þrumujól !
Jæja, enn eitt aðfangadagskvöldið liðið. Svínakjötið var gott, ísinn hennar mömmu frábær og heita súkkulaðið og kaniltertan voru punkturinn yfir i-ið og komman yfir ó-ið
Ég byrjaði daginn á því að mæta í vinnuna. Við höfðum það bara huggulegt saman þau sem voru mætt, spjölluðum um jólasiði og sötruðum kaffi. Björg vinkona kom í heimsókn með Ísak son sinn og var gaman að hitta þau og fá að knúsa fyrir jólin. Við Magnea vorum með þeim síðustu sem fóru heim og kvöddumst með loforði um spil milli jóla og nýárs. Svo var farið í pakkaferð og í kirkjugarðinn með grein á leiðið hans pabba. Það stytti einmitt upp þegar við vorum þar og ég var svo ánægð með að hann skuli eiga legstað á fallegum stað eins og Álftanesi í stað þess að vera í Gufunesinu. Við mæðgur mættum ásamt Guðlaugu til mömmu rétt um fimm. Eftir mat og pakka kom fjölskyldan saman eins og venjan er en þetta árið mætti nýr meðlimur í fyrsta sinn. Arna Rún Atladóttir mætti og stal senunni. Eins og venjulega slógust allir um að fá að halda á henni og tókst mér að fá tæpar 2 mínútur í minn hlut. Mér til gleði fékk ég nóg af bókum, púsluspilum og spilum til að halda mér ánægðri yfir jólin. Óvæntasti hluti kvöldsins var án efa ein háværasta þruma sem ég hef heyrt hér á landi sem hreinlega skók húsið um sjöleytið. Þrumuveður í snjókomu á aðfangadag ! Nú hefur maður prófað allt. Nú fer ég í rúmið södd og sæl. Gleðileg jól til ykkar allra
Athugasemdir
Gleðileg jól, hjartagullið mitt. Mikið er ég farin að sakna þín. Fékk reyndar hluta af fjölskyldu þinni í æð á Þorláksmessu, hitti Steinku og Gumma hjá Nönnu sem var aldeilis gaman. Knús yfir hafið!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 25.12.2007 kl. 02:07
Gledileg Jol Svava og farsaelt komandi nytt ar. Alltaf gaman ad fylgjast med ther. Fekkstu ekki alveg pottthetta jolakortaemailinn fra mer?
Jolakvedja,
Huld og fjolskylda
Huld (IP-tala skráð) 27.12.2007 kl. 21:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.