14.2.2007 | 00:25
Varúð ! Kanína framundan !
Í gærmorgun rumskaði ég um sexleytið og kippti þá kanínunni minni upp í rúm til að kúra hjá mér. Ég steinsofnaði aftur og vaknaði ekki fyrr en að klukkan hringdi klukkutíma síðar. Ég teygði aðeins úr mér og bylti mér til en sængin var of freistandi til að spretta strax fram úr. Svo með ofurmannlegu átaki svipti ég mér upp, reif af mér sængina og sveiflaði löppunum fram úr. Þá stökk skelfingu lostin kanína út úr sænginni í loftköstum og þvagbunan stóð aftan úr henni yfir mig og rúmið. Ég var s.s. búin að steingleyma því að kanínan gæti verið á sveimi í rúminu ! Oftast stekkur hann aftur niður á gólf og fer í bælið sitt. Annars liggur hann til fóta og kemur röltandi þegar ég fer að hreyfa mig. Það var hann væntanlega að gera þarna greyið, hefur verið að koma til að heilsa mér og ég þeytti honum á loft með sænginni. Þetta tafði morgunverkin aðeins að þurfa að redda hreinsun á kanínupissi. En ég get sjálfri mér um kennt. Kanínan fyrirgaf mér um leið og kálið og gulræturnar voru komnar í matardallinn. Passa að gera ræfilinn ekki að flugkanínu aftur.
Athugasemdir
Ég hef nokkrum sinnum séð ketti fljúga af sömu ástæðum og kanína tókst á loft. Þegar Matti var kettlingur svaf hann einu sinni ofan á Gummi sem bylti sér eitthvað í svefninum og kippti sænginni ofar. Þá flaug lítil svarthvítur hnoðri hátt upp í loft og skall svo niður á sænginni aftur. Hann tók þetta hins vegar ekkert nærri sér. Kúrði sig bara niður og hélt áfram að sofa.
Steingerður Steinarsdóttir, 14.2.2007 kl. 09:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.