Jarðskjálfti gefur gott fótanudd

Ég sat við tölvuna í vinnunni þegar skjálftinn reið yfir í dag.  Ég var á sokkaleistunum og allt í einu finn ég mikinn titring undir fótunum.  Eftir að hafa notið nuddsins í nokkur augnablik spratt ég á fætur og tók í súluna sem er við hliðina á borðinu mínu.  Sú skalf og nötraði á meðan 7 hæða húsið dansaði glaðlega.  Að skjálfta loknum hoppuðu allir um í adrenalín sjokki, talandi hver ofan í annan og hringjandi út um allt.  Ég spáði því strax að þetta væri skjálfti upp á 6,4 á Richter og ætti upptök sín í Ölfusi.  Var ekki fjarri lagi Smile   Karlarnir sem vinna að byggingu stóra turnsins við hliðina á voru svo stálheppnir að vera í kaffi þegar ósköpin dundu yfir, það hefði ekki verið gaman að vera á vinnupöllunum þá!  Eftir að fyrsti æsingurinn fór að rjátlast af manni áttaði ég mig á því að Sonja og Ingibjörg vinkonur mínar búa á Selfossi.  Ég bjallaði í hvelli og náði í Sonju sem til allrar lukku var heil á húfi ásamt fjölskyldunni.  Einhverjar skemmdir urðu á innanstokksmunum en mikilvægara er að fólkið sé í heilu lagi.  Ég náði ekki í Ingibjörgu en sá að hún hafði bloggað eftir atburðinn svo staðfest er að hún er líka hólpin.  Þetta er furðuleg lífsreynsla að lenda í svona skjálfta, þessir kraftar eru eitthvað svo ótrúlega magnaðir.  Að hús geti sveiflast og götur gengið í bylgjum!  Hér í borginni sluppum við vel en hugurinn er hjá þeim sem verst fóru út úr þessu.  Vonandi fær fólkið nægar bætur og aðstoð.  Og vonandi kemur ekki annar stór skellur!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Uff , gott að allir eru í lagi. Þetta var a CNN og allir í vinnunni spurðu mig út í skjálftann.

Huld (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband