Gestgjafaraunir

gg0714Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki þekkt fyrir hæfileika mína á sviði matargerðarlistar.  Ég elska hinsvegar matreiðslubækur og á fulla hillu af þeim.  Er sjúk í uppskriftir og klippi þær gjarnan úr blöðum. Dóttir mín gerir reglulega grín að þessari ástríðu minni og alltaf lofa ég því að fara að byrja að nota eitthvað af þessu efni fljótlega. Hmm já, einmitt...  Þegar ég var að vafra á netinu um daginn rakst ég á áskriftartilboð á heimasíðu Gestgjafans.  Fáðu fimm síðustu tölublöð ársins með 20% afslætti, aðgang að uppskriftavef og afsláttarkort !!!  Einmitt það sem konunni sem aldrei notar uppskriftirnar sínar vantar !! Ég skráði mig með snarhasti og hlakkaði til að fá fyrsta tölublaðið sem var ekkert minna en Kökublaðið og leit ákaflega freistandi út.  Skráningin fór fram í lok vinnudags á föstudegi og þegar ég kíkti í pósthólfið mitt um kvöldið biðu mín hvorki fleiri né færri en ellefu tölvupóstar frá útgáfufélaginu Birtíngi þar sem mér var þakkað kærlega fyrir að gerast áskrifandi.  Hmmm. Ég hafði samband við áskriftardeildina á mánudaginn og spurði hvort ég væri nokkuð skráð sem áskrifandi ellefu sinnum fyrst ég fékk alla þessa þakkarpósta ? Haha neinei, það er ekki hægt svaraði stúlkan í áskriftardeildinni hlæjandi -  fletti mér síðan upp í tölvunni og sá að ég var skráð ellefu sinnum.  Sá hlær best sem síðast hlær.  Stúlkan fullvissaði mig um að þetta væri nú leiðrétt og ég bara með eina áskrift skráða, beiðnin væri komin inn og kökublaðið góða kæmi í þessari viku ásamt afsláttarkorti og aðgangi að uppskriftavef.  Vikan leið og sú uppskriftaóða kíkti í kassann á hverjum degi.  Ekkert bólaði á kökublaðinu.  Næsta mánudag ákvað ég að bjalla í áskriftardeildina aftur.  Í þetta sinn svaraði ungur sveinn.  Hann fletti mér upp og tjáði mér að ég ætti ekkert að fá kökublaðið, heldur fengi ég næst villibráðarblaðið.  Ég benti honum kurteislega á áskriftartilboðið góða á síðunni þeirra þar sem skýrt var tekið fram að kökublaðið væri fyrsta blaðið.  Ó sú sem þú talaðir við í síðustu viku hefur skráð þetta vitlaust sagði hann þá og lofaði að senda blaðið um hæl.  Fjórum dögum seinna kom kökublaðið í hús, mér til mikillar gleði og ánægju.  Ekkert afsláttarkort með né aðgangur að uppskriftarvef.  Hvaða máli skiptir uppskriftavefurinn manneskju sem ekki notar uppskriftir kynni einhver að spyrja, en málið er að ég ágirnist ákveðna uppskrift af ungverskri gúllassúpu sem leynist þar og ég er búin að kaupa allt efni í.  Ég hringdi því enn og aftur í Birtíng á föstudaginn.  Talaði við sama sveininn.  Ó sagði hann, þú áttir að fá kortið og það með fyrsta blaðinu (kökublaðinu) en þar sem það var sent svona sér hefur það gleymst.  Jahá, sagði ég, talaði ég ekki einmitt við þig á mánudaginn spurði ég af illkvittni og hann svaraði vandræðalega, jú, eh, ég bara hélt að hún (sem ég talaði fyrst við) hefði sent þetta með villibráðarblaðinu.  Ja, nú er ég ekki búin að fá það blað sagði ég, þá bara bíð ég og sé hvort þetta komi ekki.  Við þessar fregnir æstist hann allur upp og sagði að ég ætti að vera búin að fá blaðið og hann myndi nú sjá persónulega um að koma því til mín ásamt afsláttarkortinu.  Aðganginn að vefnum gaf hann mér í gegnum símann.   Á laugardaginn kom svo villibráðarblaðið í kassann, kortlaust.  Á mánudaginn kom það aftur, í hvítu umslagi með handskrifuðu nafninu mínu með afsláttarkortinu með.  Nú bíð ég bara spennt eftir hvað gerist næst.  Verð ég rukkuð ellefu sinnum um áskrift ?  Fæ ég næsta blað ?  Mun ungi maðurinn kannski koma næst og elda fyrir mig upp úr blaðinu ??  Eitt er víst að það er eins og lofað var, sérstakt ævintýri að gerast áskrifandi af Gestgjafanum. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lýst held ég best á að herrann mæti bara og kokki fyrir ykkur dömurnar ;-)  Anars þá bíð ég bara eftir að vera boðið í mat :-D

Gunnella (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 11:33

2 Smámynd: Rebbý

sammála Gunnellu, minnsta sem Birtíngur getur gert næst er að senda unga sveininn (ja sko ef hann er ekki of ungur og nokkuð myndarlegur) heim til þín að sína snilldartakta í eldhúsinu.
Nú er alveg öruggt mál að ég plata Önnu Stínu að láta mig vita næst þegar hún kíkir til þín og þá verður væntanlega eitthvað úr kökublaðinu á boðstólnum,  dugar ekkert minna til að fá mig með henni, eitthvað verð ég að gera því ekki baka ég sjálf

Rebbý, 20.11.2007 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband