Uppfræðsla æskunnar

Í dag var ég að halda fyrirlestra um fjöruna fyrir 8.-10. bekkinga í Korpuskóla.  Við lögðum af stað með fyrsta hópinn niður í fjöru kl. hálf níu og ég arkaði fremst, full af orku og áhuga.  Sama var ekki hægt að segja um nemendurnar.  Helmingurinn fór að kasta steinum í sjóinn og einn reyndi að grýta sel sem var nógu vitlaus til að vera að forvitnast þarna í kring.  Eftir nokkuð þóf tókst að fá þau til að standa meira og minna kyrr í hóp fyrir framan mig og ég gat byrjað að messa yfir þeim.  Ég fór þó ekki virkilega að ná til þeirra fyrr en ég sagði þeim frá áhrifum TBT mengunar á nákuðunga - sú staðreynd að kvendýr breyttust í karldýr vegna efnisins var það eina sem fékk eyrun til að sperrast upp fyrir alvöru.  Eftir klukkutíma predikun og nokkrar misheppnaðar tilraunir til að fá nemendur til að skoða umhverfið sjálfir var pása, svo var lagt af stað með næsta hóp.  Sá var enn áhugasamari en sá fyrri.  Tveir þriðju fóru að kasta steinum í sjóinn, í þetta sinn voru æðarkollur skotmarkið.  Eftir það dreifði hópurinn sér út um víðan völl og ef ég var heppin voru ca. 6 staddir fyrir framan mig að hlusta á hverjum tíma.  Slatti af hópnum reyndi að henda hver öðrum ofan í regnvatnsræsi.  Annar klukkutími búinn, önnur pása.  Hópur 3 marseraði svo af stað og virtist ekki lofa góðu.  En sjávarföllin og veðrið voru í liði með mér í þetta sinn.  Sólin skein bjart og fjarað hafði frá litlum grasivöxnum höfða.  Upp á hann brunuðu nemendurnir og lögðust í grasið í sólinni.  Þar lágu þau kyrr meðan ég las yfir þeim fræðin og þau högguðust ekki.  Engar dýrategundir voru grýttar í þessari umferð.  Ég var því tiltölulega sátt þegar ég vappaði í bílinn um hádegið.  Er samt ekki á leiðinni að gerast grunnskólakennari að atvinnu.  Til þess þarf greinilega sjálfspyntingarhvöt og óendanlega þolinmæði !

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vá, eru krakkar virkilega svona? Tökum upp reglustikuna aftur!!!

Guðríður Haraldsdóttir, 19.5.2007 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband