Hversu marga sjúkraflutningamenn þarf til að lífga við einn gest á Tupperware kynningu?

Tupperware grínSvar: Fimm !.  Ég var sem sagt að halda Tupperware kynningu í kvöld.  Allt gekk eins og það átti að gera, búið að kynna meirihlutann af dollunum og allir búnir að koma með nokkra góða brandara.  Þá tók Magga systir eftir því að Helen systir var orðin eitthvað undarleg.  Og þá meina ég undarlegri en vanalega.  Nema hvað, hún er sykursjúk og var s.s. með sykurfall.  Hún sat á stólnum, reri fram og til baka og hneggjaði ögrandi.  Nú voru góð ráð dýr og byrjað var að reyna að koma í hana mat meðan Guðlaug frænka hljóp út í búð og keypti kók sem venjulega virkar vel á svona stundum.  Erfiðlega gekk að koma í hana kókinu, meðal annars vegna þess að hún vafraði um íbúðina og veifaði höndunum eins og dansari í teknótónlistarmyndbandi.  Hún brá sér einnig í skó eins gestanna og vappaði á þeim um svæðið.  Að lokum var ákveðið að kalla á sjúkrabíl og láta pumpa sykri í teknófríkið.  Við það kættumst við einhleypu konurnar á svæðinu, enda sáum þarna möguleika á að daðra við menn í búningum.  Nema hvað, skömmu síðar komu tveir sjúkrabílar með fimm manns innanborðs brunandi að húsinu.  Hersingin kom þrammandi inn og hljólaði beint í sjúklinginn sem á þeim tímapunkti hafði hreiðrað um sig á baðherbergisgólfinu.  Þegar búið var að hressa hana aðeins við ákváðum við að taka partíið yfir á næsta stig og reyna að bjóða sjúkraflutningamönnunum Tupperware til sölu.  Þeir fylltust þegar mikilli gleði og áhuga en fjórir þeirra náðu þó að hemja sig.  Einn þeirra kom hinsvegar inn í stofu og vildi kanna hvort hægt væri að kaupa glös á slökkvistöðina.  Hann fann ekkert sem hentaði í bæklingnum en skildi eftir símanúmerið sitt ef sölukonan rækist á eitthvað.  Á þeim tímapunkti voru félagar hans fjórir stungnir af.  Þegar hann var farinn færðist aðeins ró yfir partíið.  Eitt vorum við allar sammála um - engin hafði farið á svona Tupperware kynningu fyrr - ekki einu sinni sölukonan sem er búin að kynna dótið í 14 ár !!  Fyrir þær sem vilja krydda Tupperware kynninguna sína með óvæntri komu sjúkraflutningamanna er bent á að ég leigi Helen systur út gegn vægu gjaldi.  Treystið mér, þið munuð aldrei gleyma þeirri kynningu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þessi kynning gleymist seint!  En gott að Helen jafnaði sig og hún hressti heldur betur upp á kynninguna   spurning um að bjóðast til að halda kynningu fyrir sjúktaflutningsgæjana?  Ógleymanleg setning sem einn sagði þegar hann var að reka á eftir bráðatækni.... Bráðatæknir, HÆLL!!!  Voff.....

Kristín Anna (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 09:28

2 Smámynd: Rebbý

HÆLL VOFF ????

Verst að hafa ekki tekið Kristínu á orðinu og mætt með henni ... sé að ég hef misst af heljarinnar stund

Rebbý, 13.2.2008 kl. 11:02

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég gleymdi kynningunni. Missti augljóslega af miklu.

Steingerður Steinarsdóttir, 13.2.2008 kl. 13:39

4 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vá, hvað ég hefði viljað vera á þessarri kynningu og ég sem hata svona kynningar. Slökkviliðsmenn, löggur ... nammmmm! Verst hvað löggur eru tortryggnar, enda þurfa þær að glíma við svo mikinn sora og þekkja ekki demant (mig) þegar hann birtist þeim.

Er farin að sakna þín allsvakalega, elsku snúll. Hér hafa reyndar verið klikkaðar annir og lasleiki en ég er búin að ákveða að frá og með morgundeginum verði þessu öllu lokið og þið Steingerður kíkið á mig. Helen má koma með ef ég get treyst því að það þýði sjúkrabíl ... hehehehe 

Guðríður Haraldsdóttir, 22.2.2008 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband