Fanney Edda Frímannsdóttir 9. júní 2007-13. apríl 2010

Fanney Edda fallegust :)

Í gær var til grafar borin Fanney Edda Frímannsdóttir, aðeins tæplega 3 ára gömul, sigruð af erfiðum veikindum.  Síðastliðið  ár var ég heimastarfsmaður hjá henni og aðstoðaði fjölskyldu hennar við umönnun hennar.  Ég mun aldrei gleyma því er ég sá hana í fyrsta skipti, pínulítil mús í stóru sjúkrarúmi sem horfði á mig stórum augum og kreisti puttann minn.  Á því augnabliki stal hún hjarta mínu og mun alltaf eiga hluta af því það sem eftir er.  Fanney Edda elskaði að láta lesa fyrir sig og oft sagði hún LESA! um leið og hún sá mig koma inn úr dyrunum.  Einu sinni var hún sofandi þegar ég kom á vakt og ég sat við rúmið hennar þegar hún vaknaði.  Hún opnaði augun, sá mig og sagði LESA! um leið Smile Ég hafði svo gaman af því að lesa fyrir hana og oft náði ég að lesa heilan bunka  áður en svefninn sigraði hana.  Henni þótti líka gaman að ýmsum leikjum og fannst t.d. mjög gaman að láta blása sápukúlur fyrir sig.  Einnig var gaman þegar hin ýmsu tuskudýr voru látin knúsa hana og alls kyns dót látið dansa og tala við hana.  Henni fannst líka gaman að hlusta á tónlist og horfa á dvd.  Ef mér tókst ekki að halda uppi skemmtun gat ég treyst á að Benni bróðir hennar gæti galdrað fram bros, líka Kata litla sem var greinilega í uppáhaldi.  Matti megamús, litli bróðir, var líka skemmtilegur en stundum ansi fyrirferðamikill þegar hann sýndi ástúð sína :).  Það var sárt að sjá á þessu ári hvernig heilsu litlu snúllunar hrakaði smá saman meira.  Það varð erfiðara að galdra fram bros en um leið varð hvert bros dýrmætara.  Síðasti dagurinn sem við áttum saman var góður dagur.  Fanney lék sér í rafmagnshjólastólnum, horfði á Skoppu og Skrítlu ánægð og glöð, alveg verkjalaus.  Ég las svo fyrir hana þar til hún sofnaði, kyssti hana góða nótt og kvaddi, án þess að vita að þetta yrði í síðasta sinn sem ég sæi hana á lífi.  Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessari litlu stúlku, fengið að kynnast hennar frábæru fjölskyldu sem sló um hana skjaldborg og gerði allt til að tryggja henni gott og innihaldsríkt líf.  Það er eins og örlögin hafi raðað í kringum hana öllu því besta fólki sem var að finna henni til stuðnings.  Elsku litla músin er núna laus við allar þjáningar, laus við tækin og allt það sem sjúkdómnum tengdist.  Ég veit að núna hvílir hún rótt hjá ömmu sinni og ekkert slæmt getur hent hana meir.  Samt vildi ég óska að ég gæti fengið að sjá hana aftur, að bara fá að lesa fyrir hana einu sinni enn.

Hvíldu í friði elsku litla Fanney Edda Heart 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hún var alveg yndisleg litla músin okkar, úff hvað ég sakna hennar

Fallega skrifað hjá þér

Kristín Anna (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband